sunnudagur, 20. október 2013

Skálholt: Tilgátukirkja í tilgátuheimi

Nú fá kirkjunnar menn eitthvað til að slást um.  Þeir geta ekki unað sér á friðarstóli. Svo tilgátukirkjan kemur í góðar þarfir.  Nauðsynlegt er að koma upp þessari nýgömlu kirkju til að sýna hve voldugir Íslendingar voru og eru. Við vorum mestir og bestir.  Og erum það
enn eins og Forsætisráðherrann okkar segir þar sem hann veltir sér um  í heitum friðarsandinum á Flórída.

Skólaráð staðarins er ekki hrifið, (ég man nú ekki hvort það mótmælti kofa Árna Johnsens fyrir skömmu síðan).
 „Í okkar huga er þetta fyrst og fremst helgistaður sem vissulega býður túrista velkomna en frumhlutverk þessa staðar er að vera helgi- og sögu- og menningarstaður en ekki bara einhvers konar túristastaður. Það hlutverk er víkjandi en ekki ríkjandi.“  

Og Hjalti Hugason og Sigrún Óskarsdóttir taka sterkara til orða:  
Gullkálfur á helgum stað
Torvelt er að sjá að „miðaldadómkirkja“ í Skálholti reist á öndverðri 21. öld geti þjónað öðrum tilgangi en að vera sölubúð. Það er ekki annað að sjá en að það sé einmitt hugmyndin. Því virðist fyrst og fremst um gullkálf að ræða, svo vísað sé til forns dæmis sem kirkjan ætti að varast.
Bregðist þjóðkirkjan því trausti sem henni var sýnt með afhendingu Skálholts er mikill skaði skeður. Gjöfin verður vissulega ekki aftur tekin. Verði Skálholt „afhelgað“ er kirkjunni og kolkrabbanum á hinn bóginn vorkunnarlaust að reka staðinn af þeim tekjum sem gullkálfurinn og dansinn í kringum hann kunna að skapa. Árleg meðgjöf þjóðarinnar með Skálholti ætti þá að falla niður. Það er óþarft að þjóðin leggi fé í þá hít.


Já, lesendur góðir, væri ekki gott að þessir sterku fjárhirðar létu fé sitt drjúpa í Ríkisspítalann í staðinn fyrir að prjála austur í Skálholti en eflaust verða það handhafar tilgátuguðs sem sigra þeir sömu sem krupu fyrir ameríska fjármagnsguðinum í Laugardalshöll fyrir nokkrum vikum. Þannig er tilgátulíf okkar í dag.