fimmtudagur, 23. apríl 2015

Trúðar í þjónustu þjóðar og flokks

Kona mín sem les úrvalsbókmenntir, benti mér á það við morgunverðarborðið, að í Stríð og friði, sem hún les núna, væru menn ennþá með trúða á öllum betri heimilum.  Ég hélt að þetta væri eitthvað sem hefði liðið undir lok töluvert fyrr.  En ........ svo fór ég að hugleiða........ 

Erum við Íslendingar ekki búnir að taka upp þetta ágæta kerfi,  og höfum jafnvel gengið lengra, gert Trúða að okkar æðstu valdamönnum og hugmyndasmiðum?  Þetta held ég að sé
algjörlega kýrskýrt, jafnvel grafalvarlegt, svo maður noti vinsælasta orð seinustu vikurnar.  

Forsætisráðherrann okkar kemst langt að vera Trúður þjóðarinnar, nú stundar hann að hleypa upp Þingfundum á þann hátt sem sæmir góðum og vellaunuðum trúði. Það gerði hann svo sannarlega í gær á Alþingi. 

Forsætisráðherra kvartar undan leka úr samráðshópi

  

Þingheimur umbreyttist í pilsasviptingar og bakendahlaup úr þingsölum,  ekki í fyrsta sinn. Og æðstistrumpur horfði sigri hrósandi yfir hjörð sína eins og góðum Yfirtrúði sæmir. Má segja að hann hafi algjörlega skákað öðrum sem hafa barist um þennan titil, þar kemur auðvitað fyrst upp í hugann kyntröllið Vigdís Hauksdóttir svo og reisupassaskrímslið Ragnheiður Elín. Þótt nokkrir karlar gefi þeim lítið eftir svo sem Ásmundur Friðriksson, Jón Gunnarsson, Guðlaugur Þór sem upplýsti okkur um fjármálavisku Hannesar Hólmsteins í vikunni, þar sem Hannes
hefði fundið tugi ef ekki hundruðir milljarða sem misvitrir embættis- og stjórnmálamenn hefðu misst úr höndum sér.  Að sjálfsögðu allt fólk sem ekki er hægt að tengja við Sjálfstæðisflokkinn,fjármálaævintýri tengjast sjaldan þeim flokki í hugmyndaheimi Hannesar. 
En líklega er Hannes Hólmsteinn Gizzurarson Yfirtrúður allra tíma, enda var hann valinn í stjórn Seðlabankans án nokkurra verðleika, lætt inn á Háskólakennarastöðu án auglýsingar, og yfirleitt er hann sendur nú úr landi ef einhverjar kosningar eru framundan.  

Trúðslæti eru ekki í hávegum höfð nokkrar vikur fyrir kosningar, þá stunda menn alvöru og yfirlýsingar sem þeir ætla ekki að standa við eftir kosningar.