laugardagur, 7. desember 2013

Ríkisstjórn: Ár grænu ljósanna framundan

 Nú er dásamlegt að lifa, nú verður lífið sem aldrei fyrr.  Ekki einu sinni 2007 jafnast á við þennan dýrðarljóma.  Nú fáum við að  líta glit hins Græna ljóss. Engin boð og bönn, engar eftirlitsstofnanir sem koma öllu í uppnám eins og Guðlaugur Þór hefur bent svo réttilega á, af biturri reynslu.  Nú eru það grænu ljósin sem blíva:

Orkustofnun gefur grænt ljós á lagningu Suðurnesjalínu

segir í Viðskiptablaðinu í dag.  Jarðstrengur er fáránleg hugmynd að sjálfsögðu:

Orkustofnun tók undir þau rök Landsnets að jarðstrengur væri óhagkvæmari en loftlína og í leyfinu segir að hvorki umhverfissjónarmið né annað réttlæti kostnaðaraukann sem myndi fylgja því að leggja línuna í jörðu

Ég hlustaði á frétt frá Svíþjóð fyrir nokkrum vikum þar sem kom fram hversu mikill sparnaður var í ofviðrinu þá  í Mið-Svíþjóð þar sem raflína  hafði verið lögð í jörð.  Það væri von á meiri stormum og hvassviðrum næstu  árin og áratugina svo annað væri út í  hött.  En Orkustofnun veit að sjálfsögðu betur. 

Já,  lesendur góðir,  grænu ljósin munu lýsa leið okkar inn í  nýtt blómaskeið.  Við þurfum engin höft, ekki í umhverfismálum, ekki í sjávarútvegsmálum, ekki í efnahagsmálum. 

Hverjum dettur það í hug að útgerðarmenn eigi að taka á sig skell þegar illa árar eins og núna.  Þeir eiga að fá að handleika fé sitt sjálfir, greiða út milljarða í arð, þeir hljóta að fjármagna gull sitt okkur öllum til hagsbóta!!!!!  Við eigum að bíða þolinmóð og sjá hvað þeir gera, það er óþarfi að dæla peningum í rannsóknir, menningu, menntun og listir.  Við erum öll sammála um þetta. 

Takk fyrir, Þorsteinn Már, Guðbjörg og Loftur, fyrir að fórna ykkur fyrir okkkur.   Takk fyrir að halda Morgunblaðinu gangandi.  Hvar værum við annars????? 

Lifi Grænu ljósin.