miðvikudagur, 29. júlí 2015

Spámenn: Jón Baldvin leysir málin

Spámaðurinn mikli ryðst fram á sjónarsviðið.  Jón Baldvin Hannibalsson.  Núbúinn að uppgötva Útgönguskatt frá Asíu, kreppu í Evrópusambandinu, sjúkt hagkerfi á heimsvísu. Allt ný speki sem enginn hefur rætt um hér eða erlendis.  

Allir búnir að gleyma hlutdeild hans í hugmyndum um einkavæðingu og ljúfu sambandi við Davíð Oddsson.  Og ofurskammti af Siðblindu. Og sumir Vinstrimenn hrósa honum í hástert, þótt aðrir bendi á grunnhyglina í skoðunum hans (Lilja Mósesdóttir).  Ekki ætla ég að kvarta
yfir aldri Jóns, hann er hress og kátur miðað við aldur og fólk á öllum aldri á að tjá sig um hina ýmsu þætti þjóðlífs.
Sumt gerði han vel sem ráðherra, sem fær nafn hans til að lifa.  

Eru Vinstri menn búnir að gleyma grunninum?   Eflaust er nokkuð til í því.  Flestir kjósendur þeirra eru millistéttarfólk, þjóðfélagið er allt öðru vísi uppbyggt en var fyrstu áratugina eftir stríð.  Fjölmiðlaeigendur eru með tengsl inn í auðvaldsflokkana leynt og ljóst.  Hamrað er á ríkisfjölmiðlum ef þeir voga sér að hafa gagnrýna hugsun. Svo er líka um smáblöð.  Eigendur útgerðar og stórfyrirtækja verða æ sterkari.  Það er erfitt í augnablikinu að sjá hvernig á að berjast við þá. Sá flokkur sem nýtur mestrar hylli í skoðanakönnunum hefur enga heildstæða hugmyndafræði um þessi mál, þótt hann eigi góða talsmenn vitrænnar umræðu á Alþingi.   Umhverfismál og framtíð mannkyns er æ sterkari þáttur í hugmyndum róttækra.  Meðan valdamenn loka augum og ímynda sér að lausnin sé stóriðnaður og lægri skattar.   

Það er gott að Jón Baldvin á nokkrar mínútur í fjölmiðli, það er skárra en að hlusta á utanríkisráðherrann rugla um hvalveiðar, flokkssystur hans að ráðast á húsnæðisráðherra sem fær öll mál sín stöðvuð af Sjálfstæðismönnum.  Meðan við bíðum eftir allsherjarhruni Heilbrigðiskerfisins.  Jón Baldvin leysti ekki þau mál í viðtalinu!