Það voru kosningar fyrir skömmu, munið þið það ennþá? Það var kosið og með bellibrögðum hrifsuðu hægriflokkar til sín völdin. Formaður Sjálfstæðisflokksins og Fjármálaráðherra faldi skýrslu um þátttöku sjálfs sín í aflandsfélögum og skattaundanskotum. Hann myndaði svo ríkisstjórn með frænda sínum og samstarfsmanni í braski með stuðningi pólitískra einfeldninga sem vildu ekki fara í ríkisstjórn með flokkum sem vildu láta auðmenn borga sanngjarna skatta
svo við gætum haft blómlegt velferðar, heilbrigðis og menntakerfi. Nú neitar Forsætisráðherrann að mæta fyrir nefndir alþingis sem vilja gegna eftirlitshlutverki sínu. Hann heldur að hann ráði því. Hann heldur að hann ráði öllu. Og hneppir jakkann að sér.
Nú höfum við fengið nýja skoðanakönnun. Í ljós kemur að það var ekki þessi stjórn sem fólkið í landinu vildi. Fólkið vill velferðarstjórn. Stjórn gegn spillingu.
Ekki Sérhagsmunastjórn. Enga Engeyjarstjórn.
Samkvæmt könnuninni mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins 26,1 prósent, Viðreisnar 6,9 prósent og Bjartrar framtíðar 6,1 prósent. Samtals fengu flokkarnir þrír 46,7 prósent fylgi í kosningunum 29. október í fyrra. Þeir tapa allir fylgi frá kosningunum samkvæmt könnuninni. Sjálsfstæðisflokkur 2,9 prósentum og Viðreisn 3,6 prósentum en Björt framtíð 0,9 prósentum.
Vinstri græn mælast nú með 24,3 prósent fylgi eða 8,4 prósentum meira en flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Píratar eru nánast með sama fylgi og þeir fengu í kosningunum í lok október (14,6 prósent), Samfylking bætir örlitlu við sig (úr 5,7 í 6,4 prósent) en Framsóknarflokkurinn, sem fékk síðan verstu útreið í 100 ára sögu sinni í kosningunum þegar hann fékk 11,5 prósent atkvæða, mælist nú með 10,9 prósent fylgi.