laugardagur, 4. janúar 2014

Svokallaður umhverfisráðherra kastar hanskanum

Já, þá er það byrjað, umhverfisstríðið, sem ég hafði búist við að kæmi.  Eftir yfirlýsingar svokallaðs umhverfisráðherra að rífa upp Rammaáætlunina sem samþykkt var í fyrra. Umhverfissóði í umhverfisráðuneyti.  


Einhver álitsgjafi sem ég sá um daginn sagði að það væri enginn munur á fyrri ríkisstjórn og þeirri nýju, svo bætti Styrmir um betur 
í morgun í RÚV 1, núverandi stjórnarandstaðan hafði ekkert gert .  Og enginn mótmælti honum.  Það eru stórir málaflokkar sem eru komnir í eldlínuna, umhverfislöggjöfin nú. Áður stórbreytingar á Fjárlögum þar sem minnihlutinn bjargaði ríkisstjórninni að verða sér til skammar. Sama var með hugmyndir sjávarútvegsráðherra (já, sá hinni sami!!!) um gjafakvóta til makrílútgerðarmanna.  

En nú harðnar baráttan, Náttúruverndarsamtök Íslands láta heyra í sér:   
„Umhverfisráðherra hefur með ákvörðun sinni um breytingu á friðlýsingarskilmálum þeim sem Umhverfisstofnun vann fyrir stækkun friðlandsins í Þjórsárverum - í samræmi við gildandi náttúruverndaráætlun og í samræmi við rammaáætlun - enn á ný opnað fyrir að víðerni svæðisins vestan Þjórsár verði spillt, að hinir stórkostlegu fossar, Kjálkaversfoss, Dynkur og Gljúfurleitarfoss neðar í Þjórsá, verði eyðilagðir.“
Þetta segir í tilkynningu frá Náttúruverndarsamtökum Íslands. Samtökin segja ráðherra gera rammaáætlun að engu.
„Jafnframt er það svæði sem ráðherra undanskilur frá friðlýsingu líkt og fleygur rekinn inn í hjarta Þjórsárverasvæðisins sem Landsvirkjun og stjórnvöld munu í framtíðinni nýta sér til að stækka fyrirhuguð stíflumannvirki til samræmi við fyrri áform fyrirtækisins. Ráðherra hefur rammaáætlun að engu og gefur auga leið að ef sitjandi umhverfis- og auðlindaráðherra kemst upp með geðþóttaákvarðanir þvert á gildandi lög og samþykktir Alþingis mun Landsvirkjun - hér eftir sem hingað til - engar sættir virða.“
Hann er skrýtinn þessi fyrrum græni flokkur sem er búinn að færa sig lengst á hægri vænginn.  Ætli Jónas og Steingrímur snúi sér ekki í gröfinni????

Hanskanum hefur verið kastað.