miðvikudagur, 5. febrúar 2014

Woody Allen: Glæpir og refsingar

Í seinustu viku horfði ég á nýjustu mynd Woody Allens, Blue Jasmine, myndin fjallar um konu í taugaáfalli, ekki á barmi, heldur í.  Fjölskylda hennar hefur gengið í gegnum miklar hörmungar, maður hennar sem var fjármálamaður setti allt á hausinn, var fjárglæframaður, það tætir fjölskylduna í sundur og hún Jasmine heitir hún leitar á náðir systur sinnar sem
tilheyrir annarri stétt, hún er ekki rík, er á öðru menningarsviði ef maður segir svo, býr í fátækrahverfi að mati systurinnar.  Svo heldur harmleikurinn áfram í nýrri borg á nýjum stað, meira vil ég ekki segja.  Nema að þessi mynd var afargóð og leikur Cate Blanchett, áströlsku leikkonunnar víðfrægu, var þvílíkur að annað eins hef ég ekki séð lengi. Það er merkilegt að Woody Allen geti gert mynd sem hefur svo mikla stéttarlega og samfélagslega tilvísun.  

Svo komu nýju fréttirnar um samskipti Woodys og fyrrverandi uppeldisdóttur hans.  Einu sinni enn.   Við Íslendingar erum svosum orðin hagvön fréttum af kynferðisglæpum gegn börnum og unglingum. Það er meira að segja dæmt í þessum málum núorðið.  Lýsingarnar á framferði barnaníðinga eru ekki óþekkt fyrirbrigði en málið er ennþá hvort hægt sé að sanna á þá glæpinn. Oft koma glæpirnir upp úr sálartetrinu eftir mörg ár. Við viljum ekki að saklaust fólk lendi í fangelsi.  Ekki einu sinni þótt sumt geti bent til sektar.  Þannig er með Woody Allen.  Það er kjarngott að hafa hann á milli tannanna, selur vel í fjölmiðlum, þótt hann hafi ekki verið ákærður eða dæmdur.  Við höfðum nýlega dæmi í okkar litla þjóðfélagi í okkar litlu yfirstétt. Þar sem svipað gerðist, ákæra löngu eftir að atburðir gerðust, safamiklar lýsingar í slúðurblöðum, fjölskyldur í sárum.

 Og hvað eigum við að gera, fólkið úti í bæ?   Við sem höfum verið aðdáendur listamannsins eða stjórnmálamannsins?  Ég verð að viðurkenna að þetta hefur áhrif á mann þessar lýsingar, ég man að ég horfði öðrum augum á Íslendinginn sem fékk á sig árásirnar á eftir.  En ég var ekki tilbúinn að dæma hann samt endanlega.  Sama er um Woody ég hef verið aðdáandi kvikmyndalistar hans og orðsnilldar. Hann er einn af þessum snillingum af guðs náð, stundum pirrandi úr hófi, oftar gleðigjafi á erfiðum stundum í lífinu. En getum við dæmt hann, svona einn tveir og þrír án ákæru án dóms?   Gatan er búin að dæma hann, hvernig getur hann varið sig?  Það hafa ekki fleiri stigið fram og bent á hann. Á hann sér uppreisnar von? Eigum við að trúa því að heilt heilbrigðis og dómskerfi taki mál hans silkihöndum þar sem um er að ræða alkunnan einstakling  og er það sama hjá okkur?  

Ég veit það ekki, ég hef ekki spádómsgáfu.  Það er gott að hafa í huga glerhúsið og steinana.