Ég leyfði mér undanþágu í morgun og horfði á sjónvarp fyrir hádegi, Kíkti á Gísla Marteins Show. Vil vera í ró og næði á sunnudagsmorgnum, þoli ekki geðshræringu og sálarstríð svo snemma dags. En ég horfði á þessa rólyndu stjórnmálaumræðu. Þarna sátu Þórður Snær, Elín Hirst og Bogi Ágústs og ræddu dægurþrasið. Svo voru Egill og Katrín Odds leidd fram að ræða Hrunið með stórum staf. Þá var komið nóg hjá mér. Ætli ég þurfi nokkuð að horfa á fleiri þætti. Þetta er ekki óhefðbundinn þáttur ef ég nota uppáhaldsorð landans nú um stundir.
Fordómar mínir, hugmyndir og skoðanir sönnuðust vel þennan morgun. Mér er frekar vel við Gísla Martein, ég sat einu sinni nálægt honum á kaffihúsi og heyrði umræðu hans við kunningja, allt var til þess að mér finnst hann viðkunnanlegur karl. En hann er enginn leiftrandi þáttastjórnandi. Vantar einhvern innri mátt til að kveikja í umhverfinu. Svo það er fólkið sem hann velur sem á að segja til hvernig þátturinn verður.
Ég verð alltaf miður mín þegar Elín Hirst tjáir sig, hún var svo ánægð með xD jafnvel þegar búið var að ræða um að flokkurinn væri með allra minnsta fylgi sem hann hefði haft. Þá talaði hún um hversu vel gengi um þessar mundir. Svo ég held áfram að verða miður mín. Það er merkilegt hvað hún á gott aðgengi að fjölmiðlum. Og þó það er ekkert skrítið.
Þórður Snær og Bogi eru báðir viðkunnanlegir karlar. Það er gaman að heyra í frjálslyndum Sjálfstæðismanni sem þorir að vera frjálslyndur eins og Bogi, þegar allt á hægri vængnum gengur út á að kúga og halda niðri skoðunum fólks, blá hönd Davíðs gerir allt óhugnanlega dapurlegt.
Þórður Snær hefur komið feiknavel inn í fjölmiðlaheiminn með Kjarnann. Þó vantar meira menningarefni í fjölmiðilinn. Og pólitísk umræða er of Samfylkingarlituð. Svo væri skemmtilegt að hafa eitt almennilegt viðtal þar sem almennileg skoðanaskipi eiga sér stað, beittar spurningar og engin linkind.
Umræðan um Hrunið, var svona eins og maður bjóst við. Egill var of litaður í framsóknarlitum, alhæfingar hans um vinstri stjórnina sálugu eru oft þreytandi. Katrín Odds er viðkunnanleg kona sem hefur þroskast frá því fyrir 5 árum. Þegar ég hlustaði á hana flytja ræðu á Austurvelli í hálfgerðum Einars Olgeirs stíl. Ég held að hún yrði góður stjórnmálamaður, hún hefur góða yfirsýn og er eldhugi með hjartað á réttum stað.
Magnús Scheving kom svo í heimsókn, það var gaman á Húnavöllum fyrir 14 árum þegar hann kom í heimsókn í skólann og tók prógramm með krökkunum í skólanum. Þá var fjör, hann á gott með að ná sambandi við ungt fólk. Mér er líka vel við hann því ég vann með afa hans fyrir 51 ári, það var merkilegur karl. Blessuð sé minning hans.
Svo ég er búinn að hlusta á Gísla Martein, ég held að ég kveiki ekki oft á sjónvarpinu á sunnudagsmorgnum. Útiloka ekki þó að gera það ef einhverjir virkilega spes eru í heimsókn hjá honum. Ég á enn erfitt að fyrirgefa GM það að fá Sinead í heimsókn og fá hana ekki til að syngja eitt lag. John Grant er allt í lagi en hann er engin O´Connor.
Sumar ó sumar hvar ert þú?