Fórum á Billy Elliot í gærkvöldi (laugardaginn 30. janúar) , það var frábær skemmtun. Það er gaman að sjá hversu leikhúsin eru orðin fjölskylduskemmtun. Þar sem heilu fjölskyldurnar mæta, fra 5 ára til níræðs. Hve íslensku leikhúsin eru búin að ná valdi á þessum stóru sýningum þar sem reynir á tæknikunnáttu, listfengi í leik, tónlist, leiksviðs og búningagerð. Nú eru bæði Billy Elliot og Hrói Höttur sem er stóru fjölskyldusýningarnar og Lína langsokkur eru búin að ganga í mörg ár stórgóð sýning til að koma yngri kynslóðinni á bragðið. Sá 5 ára í minni fjölskyldu sat bergnuminn allan tímann í gærkvöldi, fylgdist með öllu, skyldi líka allt, áttar sig á þegar móðir Billys birtist í hugsun stráksins. Ekkert mál. Ótrúlegt að sjá hversu hægt er að þjálfa upp krakka og ungt fólk. Strákurinn sem lék Billy, þvílík færni í dansi, fimleikum og leik. Studdur af eðalleikurum umhverfis sig, Jóhann, Sigrún Edda, Halldór, ásamt yngri fólki sem ég kann ekki nafnið á, og síðast en ekki síst Halldóra Geirharðsdóttir.
Líklega erum við mesta leikhúsþjóð heims um þessar mundir (eins og Sigmundur Davíð myndi segja) . Leiksýningar gefa ekkert eftir sýningum í nágrannalöndum okkar. Ég hef séð nokkrar sýningar í Þýskalandi og Svíþjóð. Okkar eru ekkert síðri. Bæði með tilliti til tækni og listfengis. Útrás leiksviðsmanna er í fullum gangi. Þetta er eitt af því sem Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn vilja skera niður með listamannalaununum. Greinar sem skaffa þúsundum atvinnu. Það á ekki að styrkja listir af hinu opinbera. Allir eiga að fara inn í Þungaiðnaðar verksmiðjurnar þar sem boðið er upp á billegt rafmagn á kostnað okkar svo að útlendir auðhringir getir notað okkur. Það kom mér á óvart hversu sýningin var pólitísk og íslenskir ráðamenn gætu tekið til sín ýmislegt sem fjallað er um í þessri sýningu. Þannig er Ísland í dag.
Takk fyrir mig í vetur, ég vildi komast á fleiri sýningar en maður getur ekki allt á ellilaunum.
Mynd: Af netsíðu Borgarleikhússin Sigrún Edda Björnsdóttir og Sölvi Víggósson Dýrfjörð, einn af þremur sem leikur Billy.