þriðjudagur, 19. maí 2015

Kennitöluflakk: Hvorki ólöglegt né siðlaust!!!

Enn gerist ekkert með þá sem leika sér með skiptum á kennitölu. Það er skrítið hvernig einfaldar aðgerðir gegn aðilum sem nota sér lagakróka til að komast hjá að borga
opinber gjöld og skatta virðast vera yfirvöldum ofviða.  Og það er ráðherra sjálfur sem gefur út leyfi um slit félaga með takmarkaða ábyrgð.Þetta situr á borðinu hjá honum.

Alþýðusamband Ísland skrifaði prýðilega skýrslu um þetta vandamál fyrir tæpum 2 árum og kom með tillögur. Félag Atvinnurekenda er líka með tillögur.  En..... gerist eitthvað?  Fjárhæðir sem tapast vegna óheiðarleika eigenda einkahlutafélaga og hlutafélaga eru ótrúlegar:  Á tveggja ára tímabili voru þannig lýstar kröfur að fjárhæð rúmir 400 milljarðar og af þeim innheimtust tæpir 8 milljarðar. Hér er um hreint ótrúlegar upphæðir að ræða í ljósi þess að eignir félaga eiga að ganga upp í skuldir þeirra við slit. 

Að langstærstum hluta er hér um tap sameiginlegra sjóða landsmanna að ræða9, fjármuni sem nýta hefði mátt til að efla heilbrigðis- og menntakerfið, treysta velferðarkerfið, bjóða félagslegar lausnir í húsnæðismálum, efla stuðning við nýsköpum og sprotastarfsemi eða lækka skatta á lágtekjufólk svo dæmi séu tekin. " Stendur í skýrslunni, munar okkur ekkert um 400 milljarða!!!!!! Í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er kveðið skýrt á um þetta: 
Unnið verður að því að jafna samkeppnisstöðu með því að vinna gegn kennitöluflakki, tryggja jafnræði vegna greiðslu opinberra gjalda, hindra að gjaldeyrishöft skekki samkeppnisstöðu fyrirtækja og koma í veg fyrir að fjármálastofnanir stjórni rekstrarfélögum til langs tíma.

Enn hefur ekkert gerst, ríkisstjórir okkar virðast ekki þurfa á fé að halda úr því að þeir gera engar bætur á lögum og reglum.  Er ekki kominn tími til????  Eigum við bara að halda áfram að leyfa einstaklingum að leika sér með fé okkar.  Einn af þeim hafði þetta til málanna að leggja: 
„Kennitöluflakk er ekki ólöglegt.
Kennitöluflakk er ekki einu sinni siðlaust,“


Hér eru nokkur brot úr þessari góðu skýrslu ASÍ fyrir þá sem eru duglegir að lesa: 
Í sinni einföldustu mynd má lýsa kennitöluflakki sem skipulagðri aðgerð forsvarsmanna þar sem verðmæti eru tekin út úr einu félagi og sett í annað félag en skuldir og aðrar skuldbindingar skildar eftir og félagið síðan sett í þrot. Mörg dæmi eru um keðju slíkra gjörninga vegna sama rekstursins þar sem sömu einstaklingar eru í forsvari1.

Mikilvægt er að gripið sé til aðgerða eins fljótt og kostur er þegar ætla má að félög með takmarkaða ábyrgð séu komin í alvarleg vanskil og að komast í þrot. Ein fyrsta vísbending um slíkt er þegar tafir verða á uppgjöri virðisaukaskatts. Önnur vísbending er síðan tafir á öðrum skattskilum og ársreikningaskilum. Þá er mikilvægt að hægt sé að velta ábyrgð yfir á forsvarsmenn félaga við tiltekin brot félaga með takmarkaða ábyrgð.

Heimild til að framkvæma slit á félögum, sem er að finna í lögum um hlutafélög og einkahlutafélög, verði flutt frá ráðherra til hlutafélagaskrár og henni jafnframt fylgt eftir af festu. 


Kennitöluflakk og umfangsmikil undanskot á opinberu vörslufé, sem gjarnan fylgja, hefur á undanförnum árum þýtt að sameiginlegir sjóðir landsmanna hafa orðið af tekjum sem skipta a.m.k. tugum milljarða á hverju ári. Afleiðingin af slíku getur aðeins orðið sú að leggja þarf auknar álögur á heiðarlegt fólk og fyrirtæki og/eða grípa til niðurskurðar í mikilvægri samfélagsþjónustu, s.s. á sviði heilbrigðis-, mennta- og velferðarmála.

Kennitöluflakk og eðli þess skekkir samkeppnisstöðu heiðarlegra fyrirtækja, sem standa skil á sínu gagnvart samfélaginu, og hefur þannig bein og óbein áhrif á starfsmenn þeirra. Þá snertir kennitöluflakk með beinum hætti hag þeirra birgja sem ekki fá greitt fyrir vöru sína og þjónustu.


Til að átta sig á samfélagslegu tjóni vegna gjaldþrota félaga með takmarkaða ábyrgð má setja það í samhengi við þá staðreynd að heildarupphæð lýstra krafna í þau 995 þrotabú félaga, sem uppgjöri var lokið á tímabilið 1. mars 2012 til 24. janúar 2013, var tæpir 166 milljarðar en heimtur einungis rúmir 5,2 milljarðar, eða um 3,14%. Sambærilegar tölur fyrir tímabilið 1. mars 2011 til 29. febrúar 2012 voru 1.236 þrotabú með lýstar kröfur að fjárhæð tæpir 236 milljarðar en heimtur einungis tæpir 2,7 milljarða, eða um 1,13%.  Á þessu tæplega tveggja ára tímabili voru þannig lýstar kröfur að fjárhæð rúmir 400 milljarðar og af þeim innheimtust tæpir 8 milljarðar. Hér er um hreint ótrúlegar upphæðir að ræða í ljósi þess að eignir félaga eiga að ganga upp í skuldir þeirra við slit.


Einnig eru þekkt dæmi um einstaklinga sem eru í persónulegum ábyrgðum og flytja eignarhald og
verðmæti yfir á aðra einstaklinga (gjarnan maka) áður en þeir fara í þrot. Þá eru þekkt dæmi þar sem
bankamenn fluttu persónulegar ábyrgðir yfir í einkahlutafélög.