sunnudagur, 8. júní 2014

Hvítasunna: Gamalt ljóð

Hvítasunnuljóð.  Frá trúlausum manni. Fann þetta í dóti hjá mér, líklega samið þegar við hjónin vorum í kennaraorlofi í Lundi í Svíþjóð 1994-1995, þá um vorið eða byrjun sumars 1995.  Þetta var einstaklega gott sumar, við hlupum og stunduðum íþróttir nærri því daglega. 

HVÍTASUNNA

hlauparinn hleypur
af sér hornin haminn
og heiminn

lestin hverfur að baki
fortíðin sagan minnið
allt verður ekkert

hann talar tungum með
fótum höndum vöðvum
lungum allt iðar titrar

malbikið hitnar og bráðnar ´
fuglarnir syngja mozart
picasso teiknar trén í dag
daliíkornar bregða á leik

hann talar tungum sem
vefjast utanum höfuð skrokk
bleikar grófar blaðrandi vitstola

fyrir ofan
hvít sól
sem blindar tryllir æsir

talar tungum
talar við okkur
talar við guð



Ferðaþjónusta: Á réttri braut??

Við fórum saman nokkur í ferð um Snæfellsnes í seinustu viku.  Ég þarf ekki að básúna fegurð nessins það var fallegt þrátt fyrir að skýjafar væri með mesta móti nema seinasta daginn þá var
sól og skúrir. Já, það var margt að sjá og söfnin í Stykkishólmi eru ansi góð á sinn hátt.  Vatnasafnið svo hrífandi í einfaldleika sínum og útsýnið yfir Breiðafjörðinn ógleymanlegt.  Það er ekki á hverju íslensku safni sem maður sér mynd eftir Andy Warhol eins og er á Eldfjallasafninum, það er ótrúlegt hverju hann hefur getað safnað hann Haraldur okkar. 


Það var gaman að sjá það að ferðamennirnir streymdu til gistingar í Stykkishólmi í byrjun júní.  Og veitingahúsin gerðu það gott sýndist mér.  En það er annað sem vakti athygli mína á nesinu á flestum stöðum ekki öllum.  Það er yfirgengilegt hátt verðlag á veitingahúsum og kaffistöðum.  Að borða ekkert sérstaka fiskisúpu á 2300 krónur og bökur á 2500 krónur er ansi hátt, 1300 kall fyrir bjór og vínglas.  Ég hugsa að erlendir túristar hugsi nú ýmislegt þegar þeir borgi þetta. Og vikuferðalag um landið plúss bensín kostar meira en góð sólarlandsferð.   Svo fær maður ekki lengur pylsu með öllu og malt á Vegamótum, nú er þar hótel með öllu við vitum hvað það þýðir.   

Yfirgengileg uppbygging hótela og gistiheimila virkar ógnvekjandi á mig.  Sérstaklega þar sem verið er að byggja upp fyrir lánsfé, eða úr styrktarsjóðum rikisins okkar.  Það er gott að vera fljótur til að bjóða þjónustu en ansi er þetta yfirgengilegt.   Í mínum augum.