fimmtudagur, 6. júní 2013

Stjórnmál: Lygin á að verða sannleikur.

Ný byrjar Alþingi Íslendinga, þar sem stóru ákvarðanirnar eru teknar fyrir okkur, fólkið, þjóðina.
Ekki er ég spámaður, og ekki get ég sagt um hvernig starfsemin gengur í ár.
Það er líka spurningin hvernig stjórnmálamenn vilja starfa.  Manni verður ómótt þegar fulltrúar þeirra koma í fjölmiðla og hafa þá tækni að skrökva endalaust skrökva þannig að það á á endanum að verða sannleikur.

Lygin á að verða sannleikur.


Við sáum gott dæmi í gær í Speglinum þegar Höskuldur Þórhallsson karpaði við Katrínu Júlíusdóttur.  Enn einu sinni heyrðum við frá talsmanni xB og xD að gengið hefði verið fram hjá vísindamönnum um Rammaáætlun.  Þótt allt annað hafi gerst. Það var nefnd sem greiddi atkvæði um hvaða liðir ættu að fara á hvern stað.  Meirihluti réði.  Auk þess vita allir að ekkert er til sem heitir hlutlæg vísindi á neinu sviði í eitt skipti fyrir öll.  Annað dæmi kom líka hjá honum að minnihluta seinustu fjögur hefði ekki verið boðið að taka þátt í formennsku nefnda.  Það er heldur ekki rétt.

Lygin á að verða sannleikur.

Þriðja dæmið sem talsmenn ríkisstjórna ræða um,  er um stöðu ríkissjóðs og þjóðarbúsins sem á að vera svo langtum verra en seinasta ríkisstjórn sagði.  Allt hefði verið svo miklu betra ef annað hefði verið gert en var gert.  Aldrei er minnst á samanburð við önnur lönd í nágrenni við okkur.  Sem sýnir að sá árangur sem náðist hér hægt og sígandi var ótrúlegur halli ríkissjóðs minnkaði hægt og sígandi þessi fjögur ár.  Ekki er heldur minnst á það að Ísland var eina ríkið í heimi þar sem allt bankakerfið datt kylliflatt.  Sem hlýtur að breyta öllu.

Nei, Lygin á að verða sannleikur.

Og nú hefst Alþingi á ný, hlustar á guðsorð og hlýðir á Guðföður sinn, Forsetann leggja línurnar.  Svo er spurningin hvað gerist.