mánudagur, 4. janúar 2016

Forseti: Úrskurðurinn er okkar, kjósenda.

Það virðast  margir vera útvaldir, að eigin mati. Til að setjast að á Bessastöðum, þessu menningar og menntasetri, sem blasir við okkur víða á Reykjavíkursvæðinu, og vera höfðingjar okkar þjóðar. .  Að taka við búi stórmenna og snillinga sem þar hafa haft aðsetur (ef til vill ekki allir)!
Sumir sem hafa í skjóli oflætis boðið sig fram aftur og aftur (ég nefni engin nöfn).
Aðrir sem vilja vekja athygli á sjálfum sér eða einhverjum furðulegum málstað.
Auðvitað mega allir gera þetta svo framarlega sem þeir eru innan laga og reglna, eins og söfnun  undirskrifta stuðningsmanna.  Undirskriftir eru furðulega fámennar, hefði átt að vera búið að breyta þeim fyrir löngu.  Samt er þetta ekki svo einfalt.  Að öðru jöfnu viljum við að fá að velja á milli karla og kvenna sem hafa unnið sér orðstír fyrir gott starf úti í samfélagi okkar. Svo geta alltaf komið til sögunnar einstaklingar sem allt í einu grípa hug þjóðarinnar. 

Nú fáum við á næstunni nöfn, einstaklinga sem treysta sér til að leggja nafn sitt og störf fyrir alþjóð.  Þeir eru ekki margir sem við höfum haft í þessi 72 ár lýðveldis okkar. Sveinn, Ásgeir, Kristján, Vigdís, Ólafur Ragnar.  Sá seinasti sem setið hefur í 20 ár, sem hefur breytt öllu, gert allt öðru vísi en áður.  Og nú yfirgefur hann stólinn, skútun, skilur okkur eftir. Ein úti á norðurhafi.  

Forsætisráðherrann vill segja eitthvað, gerir upp forsetanum sínar hugmyndir, um jákvæðnina, um myrkrið sem andstæðingar hans lifa í: 

Sig­mund­ur seg­ir ástæður til þess að hrósa for­set­an­um fyr­ir þjóðrækni og að „hafa talað máli Íslands með af­drátt­ar­laus­um hætti á alþjóðavett­vangi, eins og for­seta ber.“
„„Loks má nefna að áhersla hans á mik­il­vægi þess að við kunn­um að meta kosti Íslands og leggj­um áherslu á já­kvæðni og forðumst nei­kvæðni er mjög mik­il­væg, ekki hvað síst nú um stund­ir. Þjóðhöfðingi þarf að hafa trú á land­inu og þjóðinni, menn­ingu henn­ar og sögu,“ bæt­ir Sig­mund­ur við. „Von­andi auðnast nýj­um for­seta að gera það af sama af­drátt­ar­leysi og Ólaf­ur Ragn­ar.“

Svo er spurningin hver er það sem uppfyllir þessar kröfur Sigmundar Davíðs, eða hugmyndir Sjálfstæðismanna um frjálslyndi, frjálsa verslun, enn er sá einstaklingur ekki kominn fram.  Eflaust bíða einhverjir í startholunum.  Þeir mega ekki vera of sjálfstæðir, ekki of umhverfissinnaðir, ekki of lifandi.  Svo er á hinn veginn, hugmyndir um forseta sem er menntamaður, fylgist með straumum sinnar tíðar.  Nokkrir hafa verið nefndir, ekki vilja þeir kasta sér út í ána ennþá.  En við sjáum hvað setur.  Svo er úrskurðurinn okkar kjósendanna. Þetta verður spennandi ár.