miðvikudagur, 24. ágúst 2016

Gísli Björgvinsson: Staka um flugnamorðingja

Ég birti 3 stökur eftir tengdaföður minn Gísla Björgvinsson fyrir nokkrum dögum.  Það sem einkenndi Gísla var að blanda saman húmor, kerskni og ádeilu.  Sem er einkenni góðra vísnasmiða.  Ég fann í tiltektum mínum eina í viðbót sem tengist mér sjálfum, þessi vísa er líklega frá 1983 en þá var ég virkur í Herstöðvaandstæðingum sat þá í Miðnefnd samtakanna.  

Við vorum fyrir austan og gistum í Þrastahlíð hjá Gísla og Sigurbjörgu.  Það var gott veður og mikið flugnager.  Út um allt, líka inni í stofu, þetta fór í taugarnar á mér svo ég náði í ryksuguna og saug flugurnar upp.  Gísli fylgdist með þessu og sagði fátt.  Hann skipti sér ekki af því hvað aðrir voru að gera en lagði stundum orð í belg. 

Þegar ég hafði lokið þessu mikilsverða starfi fórum við eitthvað út.  Þegar við komum til baka þá sat Gísli með Þjóðviljapappírinn sem vafinn var utanum blaðið. Búinn að setja saman eina stöku og rétti mér.  Hún var um flugnamorðin mín: 

Hann fólkinu boðar friðarorð
fégræðgi og kúgun ristir níð. 
en fremur daglega fleiri morð 
en foringinn Hitler á sinni tíð.


6 myndarlegir Formenn Miðnefndar Herstöðvar (Hernaðar) andstæðinga. Mynd tekin í Friðarhúsinu.
Frá vinstri: Greinarhöfundur, Ingibjörg Haraldsdóttir, Sveinn Rúnar Hauksson, Árni Hjartarson, Auður Lilja Erlingsdóttir ( dóttir greinarhöfundar), Stefán Pálsson (sonur Ingibjargar)!