mánudagur, 8. júlí 2013

Ríkisstjórn og Hlaupari með kímnigáfu ......

Já, við þurfum ekki að kvarta yfir húmor stjórnarinnar um þessar mundir.  Ríkisstjórn sem sker endalaust niður tekjur sínar án þess að fá nokkuð í staðinn en ætlar að bæta hag okkar allra, það er grín og gaman. Það er kímni og kátína. 

Í seinustu viku komst kímnigáfan á hærra stig þegar skipuð var nefnd nefndanna.  Nefnd þingmannanna sem á  að kenna okkur að spara. Einhvern tímann var Steinn Ármann að tala um heilsugæsluna í Hafnarfirði sem var þá sér á parti, ég veit ekki hvernig hún er núna.  Hann kallaði hana Heilsugæslu out of Hell.  Og  nú hefur ríkisstjórnin skapað nefnd Hagræðingarnefnd out of Hell!!!  

Mannvalið í þessari nefnd er þannig að allir fagurkerar stjórnmála sleikja út um!  

Vigdís Hauksdóttir, sem hefur sérhæft sig í að tala sem mest um það sem hún veit minnst um.  Menningargeirinn er hennar (Fá)viska.    Þar ruglar hún saman öllu sem hægt er.  Það er krípí að þessi manneskja skuli vera orðin formaður Fjárlaganefndar.   

Ásmundur Einar Daðason, bændafyrirtækjarekandinn, er formaður og leiðandi, sem dansaði um leiksvið Alþingis á seinasta kjörtímabili þangað til hann lenti alsæll í fangi Sigmundar Davíðs.  Fræg voru ummæli hans um fylgispekt sína við Heilbrigðiskerfið og það verður fróðlegt að sjá hversu trúr hann verður á þessu tímabili. 

Guðlaugur Þór Þórðarson,  sá þingmaður sem duglegastur hefur verið fyrr og síðar að smala milljónum í kosningasjóði sína, um leið hefur hann vitað betur en flestir aðrir hvernig eigi að spara og vinna  í ríkisgeiranum.  Hann hefur orðspor hjá stuðningfólki sínu sem ofurmenni:

 Það er til fræg saga af Gulla að þegar hann tók við heilbrigðisráðuneytinu hafi hann haft það að yfirlýstu markmiði að komast í hóp mestu sérfræðinga um heilbrigðismál á Íslandi. Ekki einungis tókst Gulla það heldur hafa heilbrigðismálin sjaldan staðið jafnvel og í hans tíð. Reyndar mætti segja að þau hafi staðnað síðan Gulli lét af störfum. Hann lét þó ekki deigan síga heldur sneri sér að öðru og glöggir menn hafa tekið eftir því að Gulli hefur verið eiginleg samviska ríkisstjórnarinnar í þeim málum sem mestu skipta, skuldavanda heimilanna. Það er því greinilegt að lífsgæði Íslendinga eru Gulla mikið hjartans mál.

Unnur Brá Konráðsdóttir er sá fjórði í þessari frábæru nefnd, ekki er hægt að segja að það hafi skarað af henni á Alþingi engar nýjungar, allt í sama gírnum, falgeg rammaáætlun, burt með ESB, rekstur ríkissjóða án skattahækkana: 

Öflug atvinnustefna og afgreiðsla faglegrar rammaáætlunar eru málefni sem nauðsynlegt er að leggja brýna áherslu á. Auk þess þarf að draga umsókn um aðild að Evrópusambandinu tafarlaust til baka og leggja fram raunhæfa áætlun í efnahagsmálum með það að markmiði að ná tökum á rekstri ríkissjóðs án frekari skattahækkana og með þá stefnu að geta lækkað skatta til framtíðar, segir í yfirlýsingu frá þingmanninum.

Einn er það samt sem stendur framan ríkisstjórninni í húmor, það er ofurhlauparinn okkar, Guðlaugur Júlíusson, sem hljóp 10 Maraþon án þess að blása úr nös, og borðaði Hamborgara, Kótilettur og franskar og svolgraði í sig Guiness bjór með.  Þetta er svo sannarlega karl sem á að vera á Fjárlögum hvað sem Vigdís Hauksdóttir segir !!!!  Það væri líka hægt fyrir ríkisstjórnina að leita ráða hjá honum en var hann ekki ef ég man rétt aðstoðarmaður Steingríms Jóhanns í denn.