Skemmtilegt viðtal í DV í dag við meistara Friðrik Þór, að hann skuli vera orðinn sextugur og lifandi, það er kraftaverk. En það er víst að að það er margt dularfullt við Frikka. Það er sama í hverju hann lendir alltaf skellur hann aftur á fæturna eins og góðum fótboltakappa sæmir. Það er sama hvort er hauskúpubrot, svimi, blankheit eða ofdrykkja. En þetta hafði ég ekki vitað að hann hefði átt að fara í Turnaárásinni:
„Ef ég hefði átt að fara þá hefði ég farið í turnunum,“ segir hann og á við World Trade Center-tvíburaturnana. Friðrik átti bókað sæti í fyrri vélinni sem flogið var á turnanna. „Ég breytti flugáætluninni á síðustu stundu. Ég átti að fljúga til L.A. á fund snemma að morgni 11. september, en kvöldið áður var ég staddur í Toronto og bókaður í eitthvað norrænt partí um kvöldið og vissi að ég myndi ekki ná því að fara skemmta mér ef ég væri að fara í flug strax um morguninn. Þannig að ég hringdi í flugfélagið til þess að athuga hvað það myndi kosta mig að breyta miðanum. Það kostaði 150 dollara og það er verðmiðinn á líf mitt, 150 dollarar,“ segir hann.
Já, ansi er hann ódýr, segi ég bara. Margar af myndunum hans gleðja mann ennþá það er öruggt. Hann er sannkallaður autör eins og Frakkarnir segja, listamaður sem þykir vænt um fólkið og landið, er engum öðrum líkur. Maður þekkir alltaf myndirnar hans af þessum neista sem listamenn verða að hafa, en auðvitað gera allir eina og eina bommertu, hann líka. En glæðan í Á köldum klaka, Börnum Náttúrunnar, Englunum, Bíódögum og Sólskindrengnum yljar manni alltaf.
Svo ég segi bara Til hamingju með aldurinn. Vonandi verða tugirnir sem flestir í viðbót. Það var ansi gaman í fimmtugsafmælinu þegar Frikki leiðrétti allt sem ræðumenn höfðu sagt til að mæra hann. Svo ískraði hláturinn í honum þá, og væntanlega verður það alltaf. Góðar sögur og hlátur.