föstudagur, 15. nóvember 2013

Bókaflóð, þýðingar og Gagnrýni

Nú skellur á okkur flóðið, Bókaflóðið, sem betur fer er það ekkert Tsúnami eða flóðbylgja af hafi.  En það liggur við að það drekkji mörgum.  Ekki veit ég nú hvernig er að marka bókrýnendur sem  hafa lesið 3 bækur á dag í nokkrar vikur !!!!  

Það er ótrúlegt hve margar bækur þetta litla samfélag okkar ungar út þessa 2-3 mánuði.  Einu sinni bjó ég í útlöndum, Uppsölum  í Svíþjóð, ég held ekki að þar hafi rithöfundar ungað út nokkur hundruð bókum, á einu ári,  samt eru Uppsalir háskólabær og virtur menningarheimur.  

Ég sé allmargar bækur sem ég hef áhuga á að lesa,  of margar fyrir mína eftirlaunapyngju,  en ég hef augu á Jóni Kalmann, Gumundi Andra, Vigdísi, Kaupmannahöfn höfuðborg Íslands, Kamban svo eitthvað sé nefnt.  

Ég keypti um daginn ljóðaþýðingar Jóns Kalmanns Stefánssonar; Undir Vernd stjarna, sem er nýkomin út,  þar sem hann þýðir höfunda frá ýmsum löndum, marga sem ég þekki og nokkra sem ég hef ekki heyrt nefnda.  Þetta er skemmtilegt kver, gaman að fletta því og glugga í ljóðaheimum annarra þjóða.  Við erum ansi einöngruð í þessu tilliti, þótt við höfum fengið öðru hverju gersemar, eins og ljóðaþýðingar Gyrðis Elíassonar frá því í fyrra.  Þarna eru eldri höfundar eins og Werner Aspenström, Per Lagerquist, Paul Celan, Nazim Hikmet, Carlos Drummond de Andrade, Sophia de Mello Breyner Andersen (tvö seinustu úr portúgölskum tungumálsheimi sem ég hef aldrei áður heyrt nefnd).  Svo eru margir sem skrifa á ensku, aðallega Bandaríkjamenn og erlendir menn sem dvalið hafa langdvölum í enskumælandi heimi: Bukowski, Bly, Zagajewski, Wright feðgar, Langston Huges og Simic.  
Ég mæli eindregið með þessari bók, fjölbreytt og fangandi.  Hér er sýnishorn, eftir George Simic, sem ólst upp í Júgóslavíu (Serbíu) og fluttist ungur til Bandaríkjanna.  

Óblítt landslag 

Heilinn í höfuðkúpu sinni 
er mjög kaldur, 
samkvæmt niðurstöðum 
Albertus Magnus. 

Eitthvað í líkingu við óslitna freðmýri
á stærð við alheiminn. 
Næðingur vetrarbrautar. 
Himinháir ísjakar í fjarska. 

Heimskautanótt. 
Stórt millilandaskip frosið fast í ísnum. 
Fáein ljós loga enn á þilfarinu. 
Þögn og heiftarlegur kuldi.  

Já, lesendur góðir, bókaheimur er heimur sem oft er áhugaverðari en umhverfi okkar og mannaveröld.  Þar er fjallað um stærri spurningar en stjórnmálamenn okkar fjalla um og af meiri vizku og manngæsku, jafnvel þegar verið er að skrifa um óhugnanlegar sögur og atburði.  

Fyrir nokkrum dögum fór fram umræða um gagnrýni í tónlistarheiminum.  Og fyrr í haust hafa oft sprottið upp deilur um leikhúsrýni, sumir ganga svo langt að við þurfum ekki neitt slíkt. Ég er nú ekki alveg sammála því.  Góð og lifandi gagnrýni er upplífgandi og skapandi en léleg gagnrýni er mannskemmandi.  Mér þótti í tónlistarheiminum viðbrögð ýmissa vera harkaleg, ég þekki fólk sem mætti á þessa tónleika, og varð satt að segja miður sín.  Söngvari og tónlistarmaður eiga ekki að mæta veik á tónleika svo þeau geta ekki sungið eða spilað.  Áhorfendur eiga heimtingu á því. En þegar slíkt gerist verður að taka tillit fólksins sem á í hlut.  Það er vandmeðfarin leið en hún er til.  

Það er kominn vetur, vetrarlægðir þjóta eins og kríur yfir landið, en ennþá er enginn snjóavetur hér fyrir sunnan, þótt snjór sé fyrir austan, norðan og vestur á fjörðum.  Það kemur öðru hverju snjór í Reykjavík eins og myndirnar hér að neðan sýna frá því í fyrra janúar 2012.  Laugardalurinn er fagur og tignarlegur í snæskarti.   



myndir: EÓ