föstudagur, 9. október 2015

Í minningu Lennons

Þetta varð til fyrir nokkrum árum .......



Jón

Foreldrarnir, sem skírðu hann þessu einfalda, sára-                                                                 einfalda nafni,
og bættu við nafni stríðshetjunnar miklu, Winston,
hefðu aldrei ímyndað sér, að ljóssúla langt í norðri á skeri    
                                                                                                                regns og rugls
yrði tileinkuð honum, þessum orðhvata óþekktargemlingi,
það hefði nú þótt brandari í Lifrarpollinum.
Enda spurning hvort þau hefðu náð saman
að hugsa og ímynda sér, þetta blessaða par, Júlía og Alfreð,
hann á sjónum, hún á barnum, ef hún fékk pössun,
líklega náðu þau ekki saman um margt.


 En einhvern veginn er ég viss um að Jón hefði frekar
viljað hafa ljóssúluna bugðótta og kræklótta upp
himnastigann. Hann fór aldrei beinu brautina í lífinu.
Það væri líka skemmtilegt að sjá Magnús Ólafsson
stíga út úr húsinu hvíta í eyjunni  til að virða fyrir sér                                                                                  þetta
veraldarundur.  Hann hefði eflaust lýst þessu fjálglega
í dagbókinni sinni eins og hann gerði þegar hann upplifði
Töfraflautuna um árið í kóngsins Köbenhavn og fylltist
undrun  og aðdáun. Hann var svo hrifnæmur, han  Magnús,
eins og Jón, eins og Ég, kannski Þú?