mánudagur, 14. mars 2016

Sigmundur Davíð í uppnámi

Æðsti valdamaður þjóðarinnar er snillingur að setja allt í háa loft.  Hann er með heimsmet í því. Hann safnar heimsmetum.
Nú er Landspítalinn floginn á Vífilsstaði.  Það liggur ekkert á að fá nýjan spítala, 83.000 manns skipta engu máli.  Hvað heldur hann að það taki langan tíma að hanna annað sjúkrahús? Það skiptir engu máli.  Hann er með hugmyndir, við erum líka með hugmyndir, en við þörfnumst sjúkrahúss sem fyrst. Við þurfum ekki fleiri hugmyndir. Við þurfum framkvæmdir.





Háskólinn titrar af seinustu útspilum meistarans. Sjálfstæði Háskólans einskis virt. Ráðherrann ætlar að taka yfir friðlýsingar landsins. Hann veit ýmislegt um skipulagsmál það gera líka fleiri.  En við viljum hafa lýðræði.  Við horfum á of marga valdamenn sem framkvæma og vita allt betur.  Þeir hafa komið heiminum á heljarþröm, við þurfum ekki fleiri. 

Vegna viðbragða rektors og þjóðminjavarðar við yfirlýsingu sem við
undirrituð sendum frá okkur 11. mars síðastliðinn um nýjan
samstarfssamning Háskóla Íslands og Þjóðminjasafns tökum við eftirfarandi
fram: Fullyrðing þjóðminjavarðar um að samningurinn í núverandi mynd hafi
verið kynntur yfirstjórn Þjóðminjasafns og samþykktur af henni stenst
ekki, eins og mætti sannreyna með því að skoða fundargerðir
framkvæmdaráðsfunda. Samningurinn var vissulega kynntur háskólaráði, sem
þjóðminjavörður situr í, en það breytir því ekki að lokagerð hans var
hvorki kynnt í samstarfsnefnd Þjóðminjasafns og Háskóla Íslands, þar sem
við sátum, né heldur kynnt yfirstjórn Þjóðminjasafnsins með formlegum
hætti. Við samninginn hefur bæði verið bætt fjölmörgum atriðum og öðrum
breytt sem við höfum aldrei lýst fylgi við og sáum aldrei fyrir undirritun
og fengum ekki tækifæri til að ræða á fundum.
 
Okkur sem vorum fulltrúar Háskóla Íslands og Þjóðminjasafns Íslands í
samstarfsnefndinni var ætlað að gera hinn nýja samstarfssamning. Við
héldum opinn samráðsfund með starfsmönnum og stúdentum innan Háskóla
Íslands og starfsmönnum Þjóðminjasafns, vel sóttan og vel heppnaðan. Úr
fram komnum hugmyndum og tillögum unnum við á fjölmörgum fundum með
tilstyrk tveggja sviðsforseta og setts þjóðminjavarðar. Við töldum að við
hefðum komist að ásættanlegri niðurstöðu fyrir alla sem málið snertir en
það var þá hrifsað úr höndum okkar og okkur ýtt til hliðar
án nokkurra skýringa. Við fullyrðum að við hefðum kosið að bera lokagerð
samningsins undir samstarfsmenn, og þar með stúdenta, en til þess gat
aldrei komið.
 
12. mars 2016
 
Bryndís Sverrisdóttir
Helgi Þorláksson
Sigurjón Baldur Hafsteinsson
Steinunn Kristjánsdótti