miðvikudagur, 23. júlí 2014

Mótmæli: 700 dauðir á Arnarhóli

Það er uppörvandi að sjá hversu Íslendingar höndla Paestínumálið í dag.  Aldrei hafa fleiri mætt á mótmælafundi gegn þessum viðbjóði en í dag.  Við virðumst svo sammála um það sem fram fer á Ghaza. Og erum tilbúin að mæta og láta skoðun okkar í ljós. 

Meira að segja forystumenn Framsóknarflokksins hafa staðið sig vel í þessu máli.  Góð ræða okkar konu hjá Sameinuðu þjóðunum í gær í umboði utanríkisráðherra.  Og bréf Sigmundar Davíðs til Netanayhu í morgun. Mér finnst sjálfsagt að hrósa þeim fyrir það sem þeir gera vel.  Það heyrist að vísu lítið frá Sjálfstæðismönnum mér skilst að Mogginn hafi eitthvað verið að segja en það er annað mál. (aftur á móti skil ég ekki viðtalið við SDG í kvöldfréttum RUV, var hann í útlöndum eða heima hjá sér??? ) 

Eftir því sem maður les meira og fylgist meir með framgöngu Ísraelshers í umboði ríkisstjórnar landsins því meiri óbeit fær maður á þeim valdamönnum.  Þeir hlífa ekki skóla sem þeir vita nákvæmlega hvar er og að hann er fullur af flóttafólki.  Þeir hafa meira að segja staðsetningarpunktana frá sveitum Sameinuðu þjóðanna. En allt kemur fyrir ekki.  Þeir skjóta og drepa særðan mann frammi fyrir myndavélum. Þeir sýna öllulm reglum og lögum umheimsins um rétt almennra borgara á stríðstímum algjöra fyrirlitningu.  Eins og Dagur fjallaði um í ræðu sinni í dag á fundinum.   

Það var tilfinningaríkur fundur síðdegis.  Við erum sorgmædd og döpur yfir fjöldamorðunum.  Bréf Palestínumannsins sem var hér í Háskólanum var sterkt og skerandi.   Sem kemst ekki heim frá Svíþjóð til konu sinnar og nokkurra mánaða barns.  Svo lögðu 700 manns sig á Arnarhóli til að sýna fjöldann sem hefur verið drepinn.