fimmtudagur, 30. apríl 2015

Landnám: Hvaðan komum við, hvert ætlum við?

Áhugamenn um landnám hafa átt skemmtillegan vetur, þrátt fyrir veður og ófærð. Þeir hafa streymt upp í Háskóla til að hlusta á fyrirlestra um hin ýmsu svið landnáms, sögur, hugmyndir og rannsóknir, á hálfs mánaða fresti.  Flest fræðasvið hafa komið þar við sögu og kippt hefur verið fótum undan mörgum hefðbundnum hugmyndum Íslendinga. Við höfum verið of
trúgjörn á bækur og ritað mál.  Hvernig datt nokkrum manni í hug að stíga upp í smábáta og sigla af stað út á ólgandi hafið?  Það gerðu menn þó, hér myndaðist byggð þar sem menn skrimtu fram á okkar daga. Síðdegis í dag er einmitt rætt í Odda, þar eru Ármann Jakobsson og Helga Kress, þar verður örugglega andríkt og ögrandi. 

Enn eru Íslendingar á ferð um heiminn í hinu nýja landnámi.  Enn er ástandið í heimalandi voru þannig að ótal margir hugsa sér hreyfings.  Treysta sér ekki lengur til að draga fram lífið á skerinu. Vita að þeir geta haft það betra annars staðar.  Það er eins og ýmsum ráðamönnum sé alveg sama.  Þótt að ungt fólk með góða menntun þurfi að skrimta hér, íbúðakaup eru ekki fyrir neinn nema þá sem eiga peningafólk að bakhjarli.  Svo upplifir það skólafélaga og vini sem hafa lagt á hafið og eru eftir örfá ár komin á græna grein.  Þeir sem eftir eru eru gömul hró eins og ég komin á ellilífeyri, þeir sem eiga góða að og þeir sem komast hvorki lönd né strönd.  Og Ráðamenn taka alltaf málstað þeirra sem eiga að greiða laun og treysta sér aldrei að bjóða mannsæmandi kjör.  

Þannig að enn blasir spurningin við, hvaðan komum við, hvert ætlum við?  Er ekki kominn tími lesandi góður að við komum okkur saman um hið lífvænlega, ekki hið vonlausa?

Allar myndir með bloggi undirritaðs eru teknar af höfundi.  Þessi er úr Bessastaðakirkju.

miðvikudagur, 29. apríl 2015

Haukur Harðarson, Jón Steinsson og Úthlutunaraðallinn

Samkvæmt þjóðskrá er Haukur búsettur í Víetnam.
Þessi stutta málsgrein á RUV vakti athygli mína, karl sem íslenskum ráðherra  finnst ástæða að hampa fyrir valdhöfum stærsta ríkis heimsins.  Hann á ekki heima á Íslandi, ætli
einkahlutafélög hans með hlutum hans í fyrirtækjum séu líka skráð í útlöndum?  Hví eigum við að styðja við bakið á honum? Greiðir hann skatta á Íslandi?

Jón Steinsson gerir að umtalsefni í dag í Fréttablaðinu makrílfrumvarpið alræmda.  Einn liðurinn enn hjá ríkisstjórninni að festa í sessi séreinkaeign kvóta og físks í sjónum umhverfis landið.  Ef það er þjóðin sem á að fá auðlegðararðinn af útgerðinni þá getum við byggt einn Landspítala á ári!  Ef ekki þá aukum við endalaust mismunun í samfélagi okkar.  Hinir ríku verða ríkari, fátæku fátækari.  Það virðist vera hugmynd Sigmundar Davíðs og Bjarna.

Allt mun lamast næstu vikurnar í gegndarlausum verkföllum. Samtök Atvinnulífsins sem vill hafa samningaréttinn í sínum höndum og Fjármálaráðherra hafa sofið af sér allar tilraunir að undirbúa kjarabætur sem þurfti að vinna að og koma með hugmyndir til langs tíma. Þjóðarsátt er í þeirra huga sátt um það að þeir geri það sem þeim sýnist. Því er það þeirra ábyrgð þegar kerfið okkar lamast á öllum sviðum.  Þeir vinna ekki vinnu sína fyrr en allt er komið í óefni.  

Það er eins og það sé aðaltilgangur stjórnarinnar að útdeila þjóðarauðnum til vina og vandamanna meðan tími er til. Formenn stjórnarflokkanna eru óvinsælustu menn þjóðarinnar, þeim er sama um það, það eru 2 ár eftir af kjörtímabilinu.  Aðalatriðið er að úthluta, eignum þjóðarinnar. Spillingin blómstrar sem aldrei fyrr.  Úthlutunaraðallinn ræður. Meðan landið sekkur.  

mánudagur, 27. apríl 2015

Guðmundi Andra varpað á dyr

Enn sortnar yfir fjölmiðlaflórunni og ólguskýin  hlaðast upp. Eigendur pappírsfjölmiðlanna sífellt ósvífnari, ritstjórar eiga að vera þvottatuskur sem hægt er að nota í hvað sem er.  Það
hlýtur að vera erfitt að vera í vinnu hjá þessum lýð. Það er ömurlegt að vera blaðamaður í dag. Ég á það, ég má það enn allsráðandi. Einn vinsælasti pistlahöfundur landsins á ekki að þvælast fyrir eigendum.  Er verið að segja honum að hans tími sé kominn?


„Í gær skilaði ég af mér mánudagsgrein samkvæmt venju. Í blaði dagsins reyndist hins vegar köttur í bóli bjarnar.“ Þetta skrifar Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur sem skrifað hefur fasta pistla í Fréttablaðið á mánudögum um margra ára skeið, á Facebook-síðu sína í morgun. Á þeim stað sem pistill Guðmundar Andra birtast vanalega er þess í stað grein eftir Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmann stærsta eiganda Fréttablaðsins, með fyrirsögninni „Að ljúga með blessun Hæstaréttar“.

sunnudagur, 26. apríl 2015

Það sem fjármálaráðherra skilur ekki

Skrítin rökfærsla fjármálaráðherra á Sprengisandi, sem virðast vera ástæður hans fyrir viðvarandi  fátækt og eymd á Íslandi , sem er til staðar og á að vera: 

„Við meg­um ekki ganga svo langt í jöfnuðinum að það verði eng­inn hvati eft­ir,“ sagði Bjarni Bene­dikts­son, efna­hags- og fjár­málaráðherra í Sprengisandi á Bylgj­unni í morg­un.
Sagði hann ekki hafa komið til tals að setja lög á þær verk­fallsaðgerðir sem standa yfir. Þá seg­ist hann
hafa heyrt kröf­ur um að lág­marks­laun verði að lág­marki 400 og 600 þúsund krón­ur og kröf­ur um allt að 100% hækk­un grunn­launa.

Ráðherra hefur heyrt kröfur um há lágmárkslaun, hann hefur heyrt, ég hef heyrt um milljón, en það gildir ekki í samningaviðræðum  hjá ríkissáttasemjara hvað hann hefur heyrt.  

Á meðan er menntamálaráðherra í bullandi vandræðum um spillingarásakanir og Pétur Blöndal tekur eina syrpu um alfrjálshyggju í Mogganum.  Þar sem atvinnurekendur eiga starfsmenn sína, eiga, þeir sem véfengja það eiga yfir höfði sér málsókn.  
 
Spurningin í þessari samningalotu er ekki kjaftasögur og lögsóknir a la   Pétur Blöndal. Hún er um að semja, um mannsæmandi laun, og skapa sátt í samfélaginu okkar. Það skilur Bjarni Ben ekki. Vill ekki.  Það er ekki í samræmi við hagsmuni landsgreifanna sem stjórna honum.

fimmtudagur, 23. apríl 2015

Trúðar í þjónustu þjóðar og flokks

Kona mín sem les úrvalsbókmenntir, benti mér á það við morgunverðarborðið, að í Stríð og friði, sem hún les núna, væru menn ennþá með trúða á öllum betri heimilum.  Ég hélt að þetta væri eitthvað sem hefði liðið undir lok töluvert fyrr.  En ........ svo fór ég að hugleiða........ 

Erum við Íslendingar ekki búnir að taka upp þetta ágæta kerfi,  og höfum jafnvel gengið lengra, gert Trúða að okkar æðstu valdamönnum og hugmyndasmiðum?  Þetta held ég að sé
algjörlega kýrskýrt, jafnvel grafalvarlegt, svo maður noti vinsælasta orð seinustu vikurnar.  

Forsætisráðherrann okkar kemst langt að vera Trúður þjóðarinnar, nú stundar hann að hleypa upp Þingfundum á þann hátt sem sæmir góðum og vellaunuðum trúði. Það gerði hann svo sannarlega í gær á Alþingi. 

Forsætisráðherra kvartar undan leka úr samráðshópi

  

Þingheimur umbreyttist í pilsasviptingar og bakendahlaup úr þingsölum,  ekki í fyrsta sinn. Og æðstistrumpur horfði sigri hrósandi yfir hjörð sína eins og góðum Yfirtrúði sæmir. Má segja að hann hafi algjörlega skákað öðrum sem hafa barist um þennan titil, þar kemur auðvitað fyrst upp í hugann kyntröllið Vigdís Hauksdóttir svo og reisupassaskrímslið Ragnheiður Elín. Þótt nokkrir karlar gefi þeim lítið eftir svo sem Ásmundur Friðriksson, Jón Gunnarsson, Guðlaugur Þór sem upplýsti okkur um fjármálavisku Hannesar Hólmsteins í vikunni, þar sem Hannes
hefði fundið tugi ef ekki hundruðir milljarða sem misvitrir embættis- og stjórnmálamenn hefðu misst úr höndum sér.  Að sjálfsögðu allt fólk sem ekki er hægt að tengja við Sjálfstæðisflokkinn,fjármálaævintýri tengjast sjaldan þeim flokki í hugmyndaheimi Hannesar. 
En líklega er Hannes Hólmsteinn Gizzurarson Yfirtrúður allra tíma, enda var hann valinn í stjórn Seðlabankans án nokkurra verðleika, lætt inn á Háskólakennarastöðu án auglýsingar, og yfirleitt er hann sendur nú úr landi ef einhverjar kosningar eru framundan.  

Trúðslæti eru ekki í hávegum höfð nokkrar vikur fyrir kosningar, þá stunda menn alvöru og yfirlýsingar sem þeir ætla ekki að standa við eftir kosningar.  




þriðjudagur, 21. apríl 2015

Rektorskjör: Skrítin yfirlýsing Stúdentaráðs

Athygli vekur yfirlýsing Stúdentaráðs Háskóla Íslands (ætli það sé ekki stjórn SHÍ?)vegna úrslita í Rektorskjöri HÍ. Sem mbl.is gerir góð skil í dag. Ætli Stúdentaráð hafi verið kallað saman í gærkvöldi til að gefa út yfirlýsingu? Það er einhver pólítískur fnykur af þessu, ætli kosningamaskína Vöku hafi verið
settt af stað til að tryggja sigur Jóns Atla?  Ég veit svo sem ekkert um pólitískar skoðanir Jóns Atla og heldur ekki Guðrúnar Nordal, enda er ekki verið að kjósa um þær, ég veit svo sem um stjórnmálaskoðanir konu Jóns Atla, en það er annað mál.  En svona yfirlýsing er fallin að velta upp ýmsum spurningum.  Samþykkti Stúdentaráð svona yfirlýsingu? Eða var það stjórn Stúdentaráðs?  Eða setti formaður þetta saman yfir ölglasi á síðkvöldi og hringdi í stjórnina????

Þetta segir í yfirlýsingu SHÍ að sögn mbl.is:

Stúd­entaráð Há­skóla Íslands ósk­ar nýj­um rektor, Jóni Atla Bene­dikts­syni, inni­lega til ham­ingju með sig­ur­inn í rektors­kosn­ing­un­um sem fóru fram í gær. Stúd­entaráðsliða hlakk­ar (sic)  til að starfa með hon­um í framtíðinni og vinna sam­an að bætt­um hag stúd­enta.
......

Stúd­entaráð seg­ir það sjást einna helst á stefnu­mál­um hans, en hann mun koma til með að standa með stúd­ent­um í hags­muna­vörslu út á við og tryggja gæði náms við há­skól­ann, ásamt nú­tíma­væðingu kennslu­hátta. Stúd­entaráð tel­ur að að víðtæk reynsla Jóns Atla, bæði inn­an há­skól­ans og við ný­sköp­un­ar­störf, eigi eft­ir að nýt­ast há­skóla­sam­fé­lag­inu vel.

mánudagur, 20. apríl 2015

Listasafn Íslands: Something is rotten...

Kíkti inn á Listasafn Íslands í gær á sunnudegi.  Þar var ekki mikið um að vera. 4 gestir auk okkar þriggja. 
2 sýningar í gangi.  Yfirlitssýning yfir konur fæddar 1940 og fyrr.  Ágætis sýning sem slík.  Það er ekki oft sem maður fær að sjá konur saman á sýningu í tveimur sölum.  Gott að rifja upp gamla klassíkera.  Kristínu Jónsdóttur, Nínurnar, Guðmundu Andrésdóttur, Barböru,  veflistakonur okkar, gaman að kíkja yfir á 19. öldina þótt fátæklegt sé.  Gaman að uppgötva eitthvað sem hefur farið fram hjá manni. Gunnfríði Jónsdóttur höggmyndara og Eyborgu Guðmundsdóttur abstraktmeistara. En einhvern veginn vantaði meira bit, fleiri myndir eftir suma.  Og af hverju 1940 sem aldursmið? Af því að safnið treystir sér ekki að leggja allt húsið undir konur?

Á neðri hætðinn nýjasta útgáfan af Carnegie Art Award kannski sú seinasta?  Þar sem svokallaður A Kassen hópur er allsráðandi.  Og áhorfendum gert eins erfitt fyrir að fá einhverja hugmynd hverjir eru þarna á ferðinni, allt gert tilgerðarlegt og líflaust.  Á mig virkuðu Carnegie sýningarnar langtum skemmtilegri í Gerðarsafni.  Svo er rætt um á kynningu listasafnsins :  Sýningin er heildartjáning hugtaka, sem undirstrikar ekki aðeins eina heldur margar merkingar: frumleika og framleiðslu listar; valdastöður í listaheiminum; hugmyndir um verðmæti og eignarrétt; höfundarréttarsamninga og hnattrænar stefnuskrár. Eitthvað bara fyrir innvígða?  

Enda var lítið um að vera í þessu húsi.  Engir erlendir ferðamenn á þessum degi.  Engin kynning í ferðþjónustunni á íslenskri list?  Er starfsfólkið ekki að vinna sína vinnu. Tóm kaffistofa, þar sem eru ágætis veitingar og ódýrara en á kaffihúsum miðbæjarins.  Allt tómt, ekkert um að vera.  Eitthvað er rotið í þessari stofnun. 




fimmtudagur, 16. apríl 2015

Indriði sýnir okkur óréttlætið

Mikið er gott að við eigum Indriða Þorláksson að.  sem á skýran og greingóðan hátt sýnir okkur ranglæti sjávarútvegskerfisins.  Þar sem óréttlætið verður alltaf meira og meira. Yfirvöld þessa lands eru þjónar Sægreifanna.  Arðsemi sem verður til fyrst og fremst með gengisfalli krónunnar, sem auðgar þá ríku en gerir hina fátæku fátækari.  Eini nýi aflakost
ur sem hefur komið til sögunnar er Makríllinn sem yfirvöld heykjast við að setja á uppboð og afhenda Greifunum á gullfati. 

Óréttlætið er svo yfirgengilegt eins og umræðan seinustu daga sýna og framganga Kristjáns Loftssonar.  Vonandi eigum við Indriða að sem lengst, til að láta okkur ekki gleyma kjarnanum í orrðahríðinni.  Við fólkið eigum auðlindina og eigum að njóta hennar.  Hugsið þessar tölur hér að neðan í grein Indriða og hugleiðið umræðuna um Landspítala.  Manni verður óglatt.


Það er óumdeilt að arðsemi í sjávarútvegi er mjög mikil og langt umfram það sem skýrt verður sem ávöxtun þeirrar fjárfestingar sem bundin er í greininni. Þessi umframarður er afleiðing einkaleyfa sem tilteknir aðilar hafa til veiða, þ.e. kvótakerfisins. Það sést m.a. glöggt á því að með gengisfalli krónunnar frá árinu 2007 hefur rentan hækkað um marga tugi milljarða án þess að veruleg breyting hafi orðið aflabrögðum eða öðru þáttum í starfseminni sem skýrt gæti þá hækkun. Á sama tíma hækkuðu innfluttar neysluvörur almennings um svipaða fjárhæð. Þannig blæddi almenningur fyrir gengisfallið um leið og hagnaður útgerðarinnar jókst stórlega.

Á þessum sjö árum hafa sjávarútvegsfyrirtækin aflað eigendunum sínum 191 mrd. kr. í fjármagnstekjur (brúttó) og að auki skapað auðlindarentu að fjárhæð 322 mrd. kr. Af þeirri rentu greiddi útgerðin 33 mrd. kr. í veiðigjöld en afgangurinn, 289 mrd. kr., rann til fyriurtækjanna sem umframarður.

miðvikudagur, 15. apríl 2015

Ísland? Lækkaði eigin laun og hækkaði laun starfsmanna

Verkfall sem er ekki fjarri því að vera allsherjarverkfall er enginn leikur þótt ríkisstjórnin hafi með haldið það en hefur með sofandahætti gert allt langtum verra.  Ekki hjálpa eigendur stórfyrirtækja til með bruðli og bægslagangi, þar ræður græðgi meira en vit.  Verkalýðsforingjarnir eru orðnir svo þreyttir á ráðherrunum, treysta ekki orði sem þeir segja,
allt sem hefur verið borið á borð er auðvitað fáránlegt, að bjóða svon verðbólguvörn varla það og ekkert meira.  Þrjú komma eitthvað er eitthvað út í hött.


Rot­högg fyr­ir ferðaþjón­ust­una

Seg­ir ríkið nota sjúk­linga í kjaraviðræðum

 Sýður á starfsfólki HB Granda: „Erum alltaf að setja ný met en fáum aldrei neitt“

„Hagvaxtarhorfur til næstu tveggja ára eru meðal þeirra bestu í heimi“

HB Grandi gæti hækkað laun allra starfsmanna um 80.000 krónur og samt grætt 4,7 milljarða

 

 Er þetta forstjóri ársins? Lækkaði eigin laun og hækkaði laun starfsmanna

Neðsta fyrirsögnin? Nei þetta er ekki á Íslandi!

 

þriðjudagur, 14. apríl 2015

Barónar:Landið sem við eigum ekki

Kjaradeilur, fjarverur, utanfarir, uppnám, afmælisveislur. 
Einföld lýsing á sjálfsköpuðu ástandi ríkisstjórnarinnar. 
Ríkisstjórn Hóglífisins og Sjálfhverfðarinnar. Þar sem öll gagnrýni er árás. 

Annar forystusauðurinn þarf að jarma yfir fjárhúsi sínu.  Þar sem allir taka undir í kór. 
Formaður sem búinn er að tapa helmings fylgi á tveim árum og fær 98% kosningu !!!!! 
Eins og í Albaníu. 
Hinn skálar í almennilegu Kampavíni á sundlaugarbakka.  Íturvaxinn og snareygur. Hugsar sitt næsta útspil í samkeppninni við Sjálfhverfan númer eitt. Það er erfitt að taka framúr honum. Orðalepparnir, salrýnin.

En ............ Kjaradeilurnar eru á sínum stað, þær fara ekkert.  Fólk verður sífellt ruglaðra á hugmyndum valdamannanna, sjúkrastofnanir eru komnar á endastöð, við erum endalaust langt á eftir þjóðum sem við mælum okkur við, það er til fullt af peningumí samfélaginu, það má ekki skattleggja þá tekjuhæstu.  Milljörðum er mokað út í arð til Þjóðareigendanna. 

Þeir eiga ríkisstjórnina, þeir eiga okkur, Barónarnir. Sigmundur Davíð og Bjarni fá að leika með okkur í umboði kjósenda sinna. Þeir úthluta gæðum okkar svo framarlega sem það komi ekki niður á Barónunum og Barónessunum.  

mánudagur, 13. apríl 2015

Günter Grass horfinn: Hlutverk Samfélagsborgara er að hafa munninn opinn!!!

Einn meistarinn hverfur af sviðinu, skilur eftir sig þögn og tóm, og þó. Günter Grass lést í nótt. Hann á ekki eftir að skemmta okkur með orðum, skrifum, vatnslitum, skúlpúrum, í eigin persónu en hann lifir með okkur. Og öll hans fjölbreytta flóra.
Þessi víðfrægasti rithöfundur seinni hluta 20 . aldar í þýskumælandi heiminum, varð 87 ára gamall, skrifaði margar magnaðar bækur, ég las fyrst Kött og mús (á dönsku) sem unglingur, og Hundaárin (á ensku), en Blikktrommuna ekki fyrr en mörgum árum seinna (á íslensku. Svo las ég Flundran (Der Butt) á sænsku á násmárum í Svíþjóð!   Svo megum við ekki gleyma mynd Shlöndorfs um gaurinn Óskar í Blikktrommunni. 

Svo reyndum við ég og kona mína að lesa hann á þýsku fyrir nokkrum árum það var ekki auðvelt en kona mín fann þessa dásamlegu ljóðabók uppi í Þjóðarbókhlöðu, hér til vinstri. Fündsachen für Nichtleser þar sem saman fara örljóð og vantslitamynd fyrir hvert ljóð, alveg dásamleg bók! Þá las ég hina stórmerku ævisögu hans Að fletta lauki sem olli hneykslun í heimalandi hans og víðar, þegar hann sagði frá dvöl sinni í SS. Það er skyldulesning fyrir alla áhugamenn um Evrópusögu.  Líf hans sem ungs drengs í Gdansk og upplifun að vera í stríði, fangabúðum og reyna að skrimta af eftir stríðið í Vestur -Þýskalandi, fyrst fjölskyldulaus með lista mannsdraum í maganum.   
Ég sá dásamlega heimildarmynd um hann fyrir nokkrum árum.  Þessi gamli maður með pípuna og í tweedfötum (eins og ég sé hann fyrir mér). 
Nú er hann horfinn.  Þá er tími að rifja upp, kannski að finna einhverja bók sem hefur farið fram hjá manni.  
Og muna að hlutverk listamanns er ekki bara að skapa list heldur að lifa í straumum sinnar samtíðar.  Grass leyfði sér að fara óhefðbundnar brautir miðað við margar kollega hans í Evrópu.  Var ræðuskrifari fyrir Willy Brandt, sósílademokrati, leyfði sér að efast um margt sem ekki var efst á baugi hjá róttæklingum. Hann sagði verkefni Samfélagsborgara er að hafa munninn opinn!!! Eða rífa kjaft!!! Og hann stóð lengst af við það.  Blessuð sé minning hans.






föstudagur, 10. apríl 2015

Mútur: Einhverjir aðrir en við

Við erum bestir við erum ósnertanlegir við þurfum ekki að hlusta á alþjóðlegar stofnanir sem við erum aðilar að. OECD fleygir blautri tusku framan í okkur,

Ekkert í gangi til að stöðva mútugreiðslur

Fréttin í RUV í kvöld var sorgleg, tveir þættir af 17 teknir til greina annað ekki gert: 

. Í henni segir að vinnuhópurinn hafi árið 2010 sett fram 17 punkta aðgerðaplan fyrir Ísland í baráttunni gegn mútugreiðslum til erlendra embættismanna. Tveimur árum síðar hafi einungis verið búið að hleypa tveimur þeirra í framkvæmd. Síðan þá hafi lítið sem ekkert gerst utan hvað sett hafi verið á laggirnar ráðherranefnd.

Það veldur vinnuhópnum sérstaklega vonbrigðum að ekkert hafi verið gert til að berjast gegn mútugreiðslum til embættismanna hjá stofnunum erlendra ríkja. Þá þykir vinnuhópnum alvarlegt að ekki hafi enn verið sett lög sem verndi uppljóstrara í einkageiranum en eftir hrun var mikið talað um nauðsyn þess að slíkir uppljóstrarar nytu verndar.
Vinnuhópurinn bendir á íslensk stjórnvöld hafi í tvígang hunsað bréfasendingar frá formanni hópsins. Stjórnvöldum er gefinn frestur fram í október til að bæta ráð sitt, að öðrum kosti muni vinnuhópurinn íhuga aðgerðir gegn íslenska ríkinu.


Er það furða að almenningi virðist spilling vera vaðandi upp.  Við teljum alltaf að við séum yfir alþjóðalög hafin.  Mútur heita eitthvað annað en mútur hjá okkur, gjafir, vinargreiði.  Svo við höldum áfram á sama róli, gefum ríkisfyrirtæki, sleppum útboðum, látum vini og kunningja sitja fyrir.  Ráðherrar þurfa ekki að gefa upp rétt tengslanet sitt.  Samskipti við einkafyrirtæki oftast á gráu svæði.  

 

miðvikudagur, 8. apríl 2015

Skeytingarlaus Ríkisstjórn: Er á meðan er

Verkföllin hafin, lítið að gerast.  Allt verður svo vandræðalegt hjá herrunum, eða eigum við að segja skeytingarlaust?  Þeim er alveg sama,  Fjári á Flórida, af hverju birtir hann ekki myndir á Fésinu eða jafnvel á ráðuneytissíðunni.  Það gæti aukið vinsældirnar!!! Hvar er Heilsi? Er hann líka í útlöndum. Þetta eru páskar segja þeir auðvitað, hvað annað ?  Það væri kannski hægt að
fyrirgefa þeim ef þeir væru að ganga Píslargötuna í Jerúsalem eða á leiðinni til Santiago de Compostela. En þeir hefðu hvorki hugmyndaflug né trúarhita til slíks. 

Og Forsi hvar er hann?  Lætur sig bara hverfa svona einn tveir og þrír.  Það eru engar stórfréttir úr hans ráðuneyti, fjölgun lendingrstaða í millilandaflugi, jú Frosti afhendi skýrslun sína þessa einsmannsskýrslu, eða var það In defence skýrsla?  Ef til vill er Forsi að þýða hana á ylhýra móðurmálið?   Varla er hann að velta fyrir sér hvernig eigi að leysa kjaramálin, hann sagði um daginn að það ætti að hækka laun hinna láglaunuðu en hvað þýðir það?  Ekki er hann að velta fyrir sér langtímalausn að gera okkur samkeppnishæfa miðað við aðrar þjóðir í kringum okkur. Varla.  

Hann gæti sett upp starfshóp á Kvíabryggju með gömlum x B urum  til að skoða málin.  Of snjallt. Það er andinn að njóta stólanna meðan kostur er og hygla vinum, ættingjum og flokksfélögum. Fengið þriggja manna þingflokkinn til að koma með tillögur, allt leikur í höndum þeirra í augnablikinu.  Enn snjallara. 
Ekkert var gert um páskana, enginn vann í kerfinu nema Félagsdómur. Það er enginn andi enginn hugur.  Er á meðan er.  

þriðjudagur, 7. apríl 2015

Tileinkað MÞJ



Tantra
                                                         
 Fyrir daga Hamborgarabúllunnar
Smárabíós Hundraðogeins Hrunsins
Arabavorsins LadyGaGa Jónínu Ben Eirar

Önnur veröld aðrir hljómar aðrar  víddir
 Tónabíó Lídó Sælkerinn
Naustloftið  Bæjarbíó Hafnarfjarðarstrætó
Glaumbær  Tjarnarbúð Askur
Klúbburinn  Hótel Borg Hádegisbarinn
Alþýðubrauðgerðin (hugsaðu þér Alþýðu)
 Kjötbúðin Borg Ríkið á Lindargötu Ingasjoppa á
Bústaðavegi Sprúttið í leigubíl á góðum dekkjum

Tónlist gleymskunnar eyrnakonfekt  hughrif
Esjugarrinn tætist í gegnum frakkann lakkskórnir engin vörn
hretinu, strætóarnir löngu hættir að ganga
göngutúrarnir frostbítandi  og máninn glottir
sem aldrei fyrr eldrauður af vímu
og  greddu

 Stjörnubíó Skalli Geitháls
(ekki má gleyma honum)
Vesturver  Bókabúð Braga
Faco Hlégarður  Tröð KRON
Þórsmörk  Húsafell
Trúbrot Óðmenn Rúnar
á kaðlinum  Diddi spilar á
haustrommu blús feitur safaríkur
Maggi  Finnur  Rikki Óli
(munið þið Rikka?)
Guðmundur Ingólfs og Forseti
Alþingis  á efri hæðinni verðandi Forseti
Íslands á næturklúbbi við Grensásveg 

Tónaskali hins liðna
svo litfagur  glitfagur
jakki sem flýgur í sveiflu
nælonskyrta sem límist
við skrokk pils upp á
miðju læri  sveifla í
mjöðmum  miðstöð lífsins
miðstöð girndar  endastöð
fullnægingar


Síld og fiskur  Togaraafgreiðslan
Ólabúð  Stúdentakjallarinn
(stundaðar lyftingar)
Tjarnargata 20  Eimskip

Búrfell  Grammið (þvílík ósvífni)
Neil Young  Van Dyke Parks (hvur er það)
Lennon og Dylan Barrett og Hendrix,
hljómar sem tæta grip sem trylla  
Kinks í Austurbæjarbíó Lindon Kwesi
Johnson í Sigtúni  Megas í Tjarnarbíó
Patti í NASA NASA NASA NASA
Djazz Coltrane  Miles  Mingus Monk  Dolphy
Djuke Satchmo  Ella Billie í himnaríki
stjörnurnar færast nær og nær
augun splundrast í milljón geisla

 Tónatíð  tónalíf  tónastríð
tónaveröld  tónadraumar
skapaðu þinn eigin tónalista
syngdu hann í leikskólanum
syngdu hann í baði  syngdu hann
á Esjugöngu syngdu hann á Austurvelli
syngdu hann í handjárnum syngdu hann
á Bessastöðum  syngdu hann í Þjóðarbókhlöðunni.

 Þeir geta breytt nútíðinni
Þeir geta rústað framtíðinni
Þeir breyta ekki fortíðinni
 Okkar


mánudagur, 6. apríl 2015

Birgitta: Að dúlla eða kjúlla .....

Fréttin pólitíska um Páskana, flokkurinn sem margir ætla að kjósa, samt er það flokkur sem tekur ekki afstöðu.  Sjóræningjar án Sjóræningjaskips, fjársjóðs, tréplanka. Johnny Depp án
Keith Richard.  John Silver án Páfagauks. 

Ástæðan :  Sögð vera að þeir geti ekki kynnt sér allt, sitja ekki í  öllum nefndum, allt svo sem satt og rétt. Það væri hægt að fá fleiri félaga til að lesa yfir og kynna sér málin.  Eða eru þeir kannski ekki til, sérfræðingar í ákveðnum málum í flokknum?  Þetta er ekki nógu gott Birgíta, eða var það Byrgíta, eða Birgýta. Það getur verið hættulegt að dúlla við Davíð, margir hafa breyst í kjúlla við það. 

„Það er kominn tími á að breyta þessum vinnubrögðum en það er ekki eitthvað sem við getum gert nema með upplýstari almenning um það hvernig hlutirnir ganga fyrir sig og nú höfum við Morgunblaðinu til að þakka að hafa vakið athygli á vinnubrögðum okkar sem síðan hefur orðið tækifæri fyrir okkur til að kynna fyrir ykkur hvernig þingið virkar í raun og veru,“ skrifar Birgitta. „Takk Davíð Oddson, þú ert dúlla.“

laugardagur, 4. apríl 2015

Uppistandarinn Sigmundur Davíð

Uppistandarinn Sigmundur Davíð birtist í fjölmiðlum og setur allt á endann. 
Það er ekki bara eitt, nei það er spítali sem búið er að undirbúa í 20 ár á allt í einu að færs sig á milli hverfa.  Númer tvö byggja á nýtt vinnuhúsnæði Alþingis eftir gamalli teikningu Guðjóns
Samúelssonar þess góða drengs.   Ætli hann bylti sér ekki í gröfinni, hann fylgist eflaust með vinnubrögðum arkitekta (ansi misgóð) og Forsætisráðherra (aldrei annað en hörmung). 

Hvernig á nýtt sjúkrahús að komast fyrir á þessum útvarpsbletti?   
Hvernig á hús Guðjóns að rúmast í Miðbænum?  
Er einhver möguleiki á áframhaldandi stuðleikfimi Sigmundar Davíðs í Stjórnarráðshúsinu. 

Það virðist ganga vel hjá ríkisstjórninni, nema hvað, Framsóknarmenn stunda gleðipopp, lofa hærri launum, betra lífi og minni sköttum.  Frosti fer í nefnd á vegum SDG hrekur hina nefndarmennina í burt og skila eigin áliti, á ensku.  Svo sérfræðingar landsins skilji hann. 

Á meðan notar Sjálfstæðisflokkurinn tækifærið og eykur einkavinavæðingu í bönkum og fyrirtækjum, og breiðir betur úr sér í ríkisbákninu, allir dómarar og Seðlabankamenn í xD. 

En áfram streyma Elliðaárnar, kanínurnar leika um völl, og  Birgir Ármannsson og Sigríður Andersen taka sér stöðu við hlið Vigdísar Hauksdóttur og kó. Skyldi Uppistandaranum ekki leiðast að láta hlæja að sér?


fimmtudagur, 2. apríl 2015

1. apríl veröld Sigmundar Davíðs og Bjarna

1. apríl alla daga ársins.  Þannig upplifa margir, þar á meðal ég, íslensku veröldina um þessar mundir.  Fyrirsagnir fjölmiðla í gær voru þannig, allar á einn veg. Við lifum í gabbveröld, kvabbveröld. Lífið er nú þannig svo allt lífð okkar speglar það. Við eigum forsætisráðherra sem er orðinn helsti uppistandari landsins, formann fjárlaganefndar sem notar
handrukkunaraðferðina við fund á háskólakennurum, fjármálaráðherra sem úthlutar eignum ríkisins til ættingja og allir horfa á og segja jahá. Þingmenn sem vilja skammta aðgang að viðtölum við sér með lagasetningu.  Alltaf kemur eitthvað nýtt á hverjum degi alltaf kemur það manni á óvart. Ríkisstjórn sem gerir flest gegn vilja þjóðarinnar. Og heldur ótrauð áfram. Ætli tilbeiðsluhúsið verði ekki fyrir unnendur ríkisstjórnarinnar.  Þeir komast allir fyrir í þvísa húsi.   

Útilokar ekki Hringbraut en segir lausnamiðað fólk hljóta að skoða alla möguleika

Segir kenningu Frosta hafa verið hafnað fyrir átta áratugum

 Nýtt Alþingishús eftir teikningu Guðjóns Samúelssonar

„Fortíðinni sýnd virðing og draumar fyrri kynslóðar uppfylltir í þágu framtíðarkynslóða“

 Æskulýðsrannsóknir án útboðs

Forsætisráðherra vill þjóðarsátt

 Fórnuðu úlfalda og gefa kjötið

 Ísland stofnaðili að banka í Asíu

Að koma sér í úlfakreppu
Stærstu mál ríkisstjórnarinnar eftir áramót eru lögð fram í kapphlaupi við tímann. Ljóst er að fram undan eru átakavikur á Alþingi. Strax farið að ræða um sumarþing. Ríkisstjórnin náði ekki að afgreiða frumvö

Gagn­rýnt að skýrsla sé á ensku

 Til­beiðslu­hús á Nón­hæð

miðvikudagur, 1. apríl 2015

Fjalla Eyvindur og Halla : Meðmæli

Sáum aðra sýningu á þessari nýju útgáfu af þessu erfiða sígilda verki. 
Þetta verk sem í augum okkar setti Jóhann Sigurjónsson inn meðal hinna stóru Norðurlandaskálda leikritunararinnar, en er öllum gleymt nema okkur, Eyjaskeggjunum í norðri. 
Ég sá þetta stykki fyrir tæpum 50 árum í Iðnó með Helgu Bachman og Helga Skúlasyni. Í minningunni var það dimmt og drungalegt.  Enda verk Jóhanns það að mörgu leyti.Útilegurómantík með dapurlegum endi. 

Leikstjórinn og handritsútsetjari, Stefan Metz, hefur farið aðra leið, í fyrrihlutanum er brugðið upp skemmtilegri og spennandi sveitalífsmynd. Spurningin er hvort upp komist um Kára, strokufangann í dulargervi, sem á í ástarævintýri með húsmóður sinni, sem hefur framast við giftingu upp á við, og öðlast sjálfstæði með því að verða ekkja.  Kona með bein í nefinu.  Ást þeirra verður heit og æsandi. Umhverfis þau er allt hið hefðbundna sveitafólk íslenskrar sveitar. Hreppstjórinn, sýslumaðurinn, vinnukonur og menn.  Öllu lýst eins og því hafi aldrei verið lýst áður. Baðstofulíf, réttir, glíma, leitir.   Sakleysi og hreinleiki. En auðvitað eru skuggar sem koma æ meira í ljós.  

Það sem lyftir þessari sýningu eru hinir prýðilegu leikarar, Steinn Ármann var yfirstéttalegur sem Hreppstjórinn, dýrlegur í glímuatriðinu.  Pálmi Gestsson átti yndislegt atriði sem sögumaður.  Og parið, Nína Dögg og Stefán Hallur voru flott, við hlið þeirra var Siggi Sigurjóns, maður gleymir því oft í ímynd hans sem grínara, hversu glimrandi leikari hann er, sem hann sýnir í atriðinu með Nínu Dögg í seinni hlutanum.  Hið einfalda umhverfi með ísklettinn í baksýn skapar stemmninguna og hljóðmyndir og úrvinnsla hins einfalda stefs Elvars Geirs auka við andrúmsloftið sem verður æ dimmara. 

Að mínu mati tókst að gera þetta verk nærtækara manni með léttleika í upphafi sem gengur svo yfir í hin óhjákvæmilegu endalok. Það væri gaman að sjá verkin sem hafa ekki sést frá því á fyrrihluta seinustu aldar.  Ég hef séð Galdra-Loft, önnur aldrei.

Ég mæli með þessari sýningu.  Hún er betri en launaðir gagnrýnendur fjölmiðla hafa sagt.