miðvikudagur, 24. febrúar 2016

Sigmundur Davíð í Undralandi

Við lifum ískyggilega tíma, hvað eftir annað sýnir æðisti valdamaður þjóðarinnar einræðistilburði sem við höfum ekki upplifað hér á landi frá því á dögum Jónasar frá Hriflu og telji nú einhver fjölda áranna. 
Slík vinnubrögð hafa litið dagsins ljós í vissum löndum Mið og Austur Evrópu.  Eiginlega óraði
mann ekki fyrir að það myndi ske hjá okkur.  Forsætisráðherrann reynir að klína á okkur skipulagi stofnana án samráðs við nokkurn mann, skipar embættismönnum að koma þessu í gegn, sá sem talar gegn honum má vara sig. 

_______________

Öllum þótti hugmynd Sigmundar slæm

Frumvarp um sameiningu Þjóðminjasafns og Minjastofnunar veitir forsætisráðherra aukin völd til friðlýsinga húsa og mannvirkja. Allir sem sátu fund Félags fornleifafræðinga voru andvígir hugmyndinni. Starfsmenn Minjastofnunar fengu ekki að gera athugasemdir við frumvarpið og segja fullyrðingar ráðuneytisins rangar. 

________________

Hann ræðst með hamslausu stjórnleysi að stjórn Háskóla Íslands þar sem hann lætur hótanir og dónaskap ríða á fólki eins og svipuhöggum, þrátt fyrir að háskólinn hafi allan lagalegan rétt í Laugarvatnsmálinu.  Samflokkur hans í ríkisstjórn virðist vera heillum horfnir, horfa á þetta lamaðir og vilja helst fá einhver nýfrjálshyggjulög í staðinn til að brjóta niður heilbrigðis, mennta  og velferðarkerfið. 

 Svo Sigmundur Davíð fær að böðlast áfram með frekju og ruddaskap, hann skellir hurðum, þýtur út úr Alþingi niður í bæjarins bestu. Notar hina 8 aðstoðarmenn sína til að loka sig inn í drauma- og ímyndarheimi sjálfs sín. Engin skoðanaskipti eiga að vera til staðar, hann hefur gleymt því sem stendur á vef Forsætisráðuneytis: 

Samráð

Forsætisráðuneytið óskar jafnan eftir þátttöku hagsmunaaðila og almennings við undirbúning að lagafrumvörpum, reglugerðum, stefnum og tillögum til þingsályktana. Á vef ráðuneytisins eru því birtar upplýsingar um fyrirhugaða vinnu af þessu tagi, drög að slíkum skjölum og helstu gögn sem til grundvallar liggja. Þetta á þó ekki við ef opið samráð myndi ekki koma að gagni eða væri óheppilegt með hliðsjón af efni máls.
Frestur til umsagna, ábendinga og athugasemda er þrjár vikur, nema annað sé tekið fram, og framlag þátttakenda er birt undir nafni. Jafnframt gerir ráðuneytið grein fyrir tilhögun samráðs, úrvinnslu og niðurstöðu í viðkomandi máli.

Við lifum sorglega tíma, það hefði þótt saga til næsta bæjar að við sem höfum yfirleitt talið okkur til eins af velferðarríkjum Norðurlanda með lýðræðisstjórn í samræmi við það, séum komin í hóp ríkja þar sem allt færir okkur á leið til Pútíns,  Orban, Beata Szydlo og Erdogan. 

Tilvitnun í miðju úr: Stundinni