fimmtudagur, 23. júlí 2015

Ríkisstjórnin: Hvað er að frétta?

Já, hvað er að frétta.  Undirritaður vill fræða ykkur um það lesendur góðir. Forsætisráðherra er á móti nýrri byggingu Landsbankans. Það er gott að láta okkur vita.  En áður höfum við fengið að vita hverju hann er á móti, en ..... þetta fræga en.  Forsætisráðherra er æðsti ráðamaður þjóðarinnar (eða næst æðsti, þið vitið um hvern ég er að tala!). Svo hann ætti að
geta gert eitthvað.  Talað við fjármálaráðherra, sem hefur einhver áhrif í  Bankasýslunni, þótt hann hanfi ekki enn getað lagt hana niður.  Það er ekki svo að ég sé ósammála Forsætisráðherranum, langt frá því.  Þessi múr af stórhýsum sem fyrir hugaður er í suður frá Hörpunni er fáránlegur út frá fagurfræðilegu sjónarmiði og svo nýja Hótelið í Lækjargötu.  Smekkleysan ríður varla við einteyming.  Skipulagsyfirvöld í Reykjavík eru máttlaus og ræfilsleg svo ekki sé meira sagt.  Hjörleifur Stefánsson kom með gott innlegg í þá umræðu.


Svo er það heilbrigðisráðherrann, hann getur lítið gert, eins og fyrri daginn. En hann vonar að gerðardómur geri ýmislegt, þótt það sé vafasamt að hann gefi út yfirlýsingar sem þessar.  Á ekki gerðardómur að vera sjálfstæður að öðru en því sem sagt er í lögum sem Alþingi samþykkti? Og gerðardómnum eru ansi þröngar skorður settar, svo enn eru meiri líkindi en minni að við missum hundruðir hjúkrunarfræðinga og ýmsa aðra starfsmenn úr heilbrigðisgeiranum.  Að baki búa ruglingskenndar hugmyndir xD um að einkavæða allt, hvort sem kjósendur vilja það eða ekki. 

Þriðji ráðherrann sem hefur verið í fréttum (ætli aðrir séu ekki einhvers staðar í sumarhúsi eða á sólarströnd) er Eygló Harðardóttir, hún skrifaði pistil sem fór fyrir brjóstið á mörgum.  Um stöðu ungs fólks í dag, sem hún virtist hafa lítinn skilning á, hún er ekki ein um það.  Sumir þurftu að hrópa Vei vei og vildu helst að hún hypjaði sig úr ráðherrastólnum hið fyrsta.  En
hún hefur um leið unnið ágætt starf í sambandi við móttöku á flóttamönnum frá hinum stríðshrjáðu svæðum heimsin og er það vel.  Svo frá mér séð má hún enn sitja ef hún vinnur það vel.  Ef hún gæti svo komð húsnæðisfrumvörpum sínum í gegnum múr íhaldsins.  Það er oft ekki auðvelt.  

Ég gleymdi utanríkisráðherranum, hann vill minnka hvalveiðar.  Líklega hefur hann fengið ábendingu frá Bessastöðum.  Það er ansi ömurlegt, hversu við útilokum okkur frá umræðum um umhverfismál. Bandaríkin bjóða okkur ekki á ráðstefnur og umræðufundi.  Það finnst Forsetanum okkar ekki í lagi.  Arctic Circle gæti liðið fyrir þessa afstöðu stjórnvalda sem er úr takti við nútíma hugsun.  

Svo hvað er að frétta, spurði ég í upphafi.  Enn er ríkisstjórnin á róli sem fáir vita hvert leiðir.  Ennþá er það eins og vanti Skipstjóra í brúnni.  Þetta er allt út og suður.  Svo við eigum von á pínlegum uppákomum í hverri viku.  Lesendur tóku sumir eftir að ég sleppti Ragnheiði Elínu, í augnablikinu er hún too much fyrir mig.  Svo ég læt hana í friði.