Það er erfitt að horfa upp á Olympíuleika í skugga einræðis og kúgunar. Það er ekki í fyrsta sinn sem það gerist núna í Sotji í Rússlandi. En við höfum aðgang að betri upplýsingum í dag
en áður, við fáum fréttir um framferði spillingargossa sem hirða til sín milljarða í skjóli Pútins forseta. Ég horfði á rannsóknarblaða- mennskuþáttinn Uppdrag Granskning í sænska sjónvarpinu í gærkvöldi. Tveir sænskir fréttamenn fóru til Sotji, fóru í opinberar sýningar Rússa þar sem sýndar voru glæsibyggingarnar, vegir og járnbrautir sem komið hefur verið upp fyrir meira fé en allir aðrir Vetrarolympíuleikarar hafa kostað frá 1980. En þeir gerðu meira, þeir náðu sambandi bæði við Rússa og Farandverkamenn sem hafa þrælað 12 tíma í dag við að byggja upp þessi mannvirki.
En sjá hvað gerist, þeir fengu fyrstu launagreiðslu og síðan ekki söguna meir. Þá virðast undirverktakar nota sér það
með stuðningi yfirvalda að sleppa við launagreiðslur og hirða þær í eigin vasa. Rússi sem gekk lengst í því að heimta launin sín var tekinn í yfirheyrslu og pyndingar, ásakaður um að hafa stolið rafmagnsgræjum, honum var misþyrmt á alla vegur og meira að segja var stungið járnröri upp í rassboruna á honum. Hann hefur síðan verið miður sín, andlega og líkamlega, og þótt þingmenn í rússneska þinginu hafi tekið hans mál upp hefur það ekkert dugað. Farandverkamenn frá nágrannaríkjum Rússlands í suðri og austri hafa fjölmennt í tugum þúsunda til að fá sér vinnu þarna, þeir fengu ekki launin sín og voru síðan sendir heim, án launa og Borgarstjórinn í Sotji flutti ræðu í sjónvarpinu þar sem hann sagði að þetta fólk væri að misnota sér aðstöðu sína og ætluðu að trufla leikana þess vegna hefur þeim verið smalað upp í flugvélar og sendir úr landi.
Rætt var við æðsta forystumann Svía í Olympíusambandinu. Hún var á móti því upphaflega að halda leikana í Rússlandi og Olympíusambandið hefur gert kröfur á hendur rússneskum yfirvöldum að greiða launin en lítið virðist verða úr efndum.Enda verkamennirnir farnir heim til sín þar sem þeir búa við fátækt og eymd.
Erlendir fjölmiðlar hafa sagt frá því hvernig karlar, gamlir vinir og kunningjar Pútíns hafa fengið stærstu verkefnin í Sotji, öll verkefni hafa farið fram úr áætlun fyrir milljarða. Kostnaðurinn er óheyrilegur. En allt á að vera hið glæsilegast til að dásama hinn nýja alræðisherra, Pútin.
Íþróttaráðherra Svía ætlar ekki að mæta við setningarathöfnina en ætlar að fylgjast með sínu fólki í keppninni. Mér skilst að slíkt komi ekki til greina hjá íslenska ráðherranum, enda virðist það vera stefna stjórnarinnar að hafa sem mest og bezt samskipti við harðræðisstjórnir eins og í Rússlandi.