mánudagur, 16. nóvember 2015

Lögreglan: Botnlaust virðingarleysi?

Ég er nú enginn sérstakur stuðningsmaður lögreglu, kynntist slæmum hliðum hennar í sambandi við baráttu gegn herstöðvum á Íslandi fyrir nokkrum áratugum.  Svo vitum við um eftirlit hennar með vinstrimönnum um áratugaskeið, svo og eyðingu gagna sem varðar slíkar njósnir.   

En ég held samt að flest sem lögreglan gerir í daglegu starfi er faglega unnið, flest okkar þekkja lögreglumenn persónulega og oftast er það vandað fólk.  Þó er ekki alltaf svo, yfirmenn hafa
farið offari í einstöku málum, og yfirlýsing eins og formaður Lögreglufélags gaf nú um helgina er ekki til að skapa traust. 

Þess vegna finnst mér yfirlýsing Kapteinsins góða, Helga Hrafns ansi vafasöm í DV : 

„Ef það liggur á að efla vopnabúnað eða auka valdheimildir lögreglunnar, þá verður fyrst að koma á fót sjálfstæðu eftirliti með lögreglu - og ef það liggur á, drífum þá í því. Lögreglan leyfir sér nú þegar botnlaust virðingarleysi fyrir réttindum borgaranna og við eflum ekki valdheimildir hennar fyrr en við höfum allavega byrjað á að leysa það vandamál.“

Botnlaust virðingarleysi fyrir réttindum borgaranna, er það ekki einum um of?  Auðvitað þarf að vera eftirlit með lögreglunni eins og öllum öðrum stofnunum, það get ég tekið undir.  En þetta orðalag kafteinsins er vafasamt.   Ef slíkt ástand væri til staðar, væri neyðarástand hér á flestum sviðum almennrar löggæslu, ég sé það ekki í mínu nærumhverfi.  En eftirlitið, er ekki eðlilegt að Helgi Hrafn og fleiri góðir alþingismenn berjist fyrir þeim málum á greinargóðan og rökstuddan hátt í sínum vinnustað?

„Þegar yfirvöld öðlast meira vald í hvaða formi sem er, þá verður að vera mótvægi. Eins og staðan er núna er mótvægið lítið sem ekkert og það hreinlega verður að leysa það vandamál fyrst, áður en lengra er haldið í valdeflingu lögreglunnar,“ segir hann.

Það er eðlilegt að umræða og framkvæmdir í framhaldi af henni fari fram þegar við höfum á nokkurra mánaða fresti atburði sem þá í París.  Sumir málsmetandi bloggarar og skoðanamiðlarar dreymir um það að við búum í sérstökum heimi á Íslandi.  Svo er ekki við verðum að vera með ábyrgan undirbúning ef slíkt skyldi gerast.  Til þess höfum við stjórnkerfi. Og kerfinu þurfum við að geta treyst. Sama hverjir sitja í ríkisstjórn.