Það er gaman að rifja upp táningstíðina með Sigurði Pálssyni, kannski ekki dæmigerðasti táningur þeirrra tíma, svona í bakspeglinum. En eftirminnilegur. Ég var einus sinni sem unglingur að þvælast á Lækjargötunni, líklega að bíða eftir strætó upp í Bústaðahverfi, þá víkur sér að mér ungur snaggaralegur piltur og spyr hvort ég geti gefið honum í strætó. Ég man ekki hvað ég gerði en ég komst að því seinna að þetta var Siggi Páls. Sem var einhver furðuvera í MR.
Árin liðu og nú er hann stórskáld, alveg verðskuldað, auk þess best klæddi maður landsins. Ljóð vega salt fyrsta ljóðabókin hans þeyttist rafmögnuð inn í kollinn á manni og er enn uppáhald hjá mér, ljóð eiga greiðari aðgang að manni undir þrítugu. Svo hefur hann fylgt manni alla ævi, þessi viðkunnanlegi og alþjóðlegi maður. Varð góðskáld með endurminningabókum sínum, Minnisbók og Bernskubók. Sérstaklega hreifst ég af Bernskubókinni og nú er komin Táningabókin. Bókin um það að vera unglingur í Reykjavík á tímum breytinga á sjöunda áratugnum. Það er eitt ár á milli okkar. Og það er ótrúlegt hvað við upplifðum margt sameiginlegt. Þótt hann væri ótrúlegur sveitamaður í höfuðborginni meðan ég var innfæddur.En hann ræðir um kostinn að vera gestur, sem sér oft annað en við hin innfæddu: Þessi sem kemur og fer, stundum langt í burtu og kemur aftur, forðast að vera heimskur í upprunalegri merkingu, þetta á svo vel við í dag:
Sem betur fer er gestsaugað glöggt.
Þessi hreyfing fram og til baka, út í heim og aftur heim, er forsenda allra framfara, annars yrðum við öll heimsk í orðsins fyllstu merkingu því lýsingarorðið heimskur tengist auðvitað orðinu heima.
Sá sem heldur sig alla tíð heima er auðvitað heimskur.
Sem minnir okkur rækilega á þá mikilvægu staðreynd að einangrunarsinnar eru í raun heimskingjar. Sérstaklega í fámennu, einsleitu samfélagi eins og hinu íslenska. Þegar svo þjóðremban mætir til leiks hættir þessu heimska að vera fyndin, þá verður hún stórhættuleg. (bls. 11)
Það er furðulegt hversu Sigurður lýsir þessum tímum vel, þar sem enn var þráttað um atómljóð, Bítlaöldin reið í garð, elítan safnaðist saman í MR, aðrir skólar voru ekki til eins og skólinn sem ég gekki í VÍ, sem var á næsta leiti við MR. Sigurður man ekki eftir honum, þó var blanda þarna á milli, helsti vinur minn var í MR á þessum árum. Svo ég átti greiða leið á menningarviðburði á þeim bæ, enda var ég sérvitringur þá eins og nú og listanörd, kynningar í Íþöku, myndlistarsýningar í Casa Nova, kvikmyndasýningar í skólastofu. Þessi tími sem snerist um skóla, vini, kennara, vandræði í samskiptum við hitt kynið. Vandamálið að finna sig í tilverunni. Það eru skemmtilegar frásagnir af kennurum, námsefni (sem oft var furðulegt og gangrýnivert), menningarstarfsemi, fólki út í bæ. Eins og heimsókn til Halldórs Laxness, Herranótt, listinni að læra að reykja og drekka. Aldrei er langt í húmorinn samt með bullandi alvöru.
Svo eru alltaf skemmtilegir útúrdúrar og hugleiðingar Sigurðar, um Reykjavík, skipulag borga, um stjórnmál og ræðumennsku. Um köllunina að vera skáld og taka fyrstu skrefin í þá átt. Þið sjáið lesendur góðir að ég naut þessarar bókar. Það er gott að lesa hana upphátt fyrir aðra í heimahúsum og spítölum. Höfundurinn takur það alvarlega að segja frá ungu fólki, það er engir kjánar, í geggjuninni og lífsgleðinni er lífsspeki. Það er erfitt að verða fullorðinn og horfa fram á veginn. Við annan lestur ber þessi alvara fastar að dyrum hjá manni. Skyldulesning fyrir hugsandi fólk á öllum aldri.
Villikettir koma við sögu í bókinni en geislavirkir
kettir gætu eins átt heima þar ........ Sandy Skoglund 1980