miðvikudagur, 7. ágúst 2013

Kjaramál: Rekum trúnaðarmennina .....

Ekki í fyrsta sinn sem þetta er gert í miðri kjaradeilu, trúnaðarmaður er rekinn, auðvitað hefur það ekkert að gera með kjaradeiluna.  Einhvern tíma var þetta gert í Straumsvík ef ég man rétt. Nú er það hjá Landspítalanum.  Staðan er bara lögð núna.  Óskyld mál.  Auðvitað er trúnaðarmanni ekki boðin staða sem er laus um leið.   

Hvað er stjórn BHM að gera? Tekur hún undir svona vinnubrögð?  Áður fyrr heyrði maður að þetta væri ólöglegt.   Að trúnaðarmann mætti ekki snerta.  Þetta segir á vef BHM

Opinberir starfsmenn 

Trúnaðarmenn sem starfa hjá opinberum aðilum njóta ákveðinna réttinda og verndar skv. 28.-30. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
  • Hann skal í engu gjalda þess í starfi eða á annan hátt að hann hafi valist til trúnaðarstarfa.
  • Ekki má flytja  trúnaðarmann í lægri launflokk, meðan hann gegnir starfi trúnaðarmanns.
  • Trúnaðarmaður situr að öðru jöfnu fyrir um að halda vinnunni ef hann er ráðinn með ótímabundinni ráðningu.
  • Trúnaðarmaður hefur rétt til þess að rækja skyldur sínar á vinnutíma.
  • Trúnaðarmaður á rétt á því að hafa aðstöðu á vinnustað til að rækja skyldur og hlutverk sitt.
  • Trúnaðarmaður á rétt á upplýsingum ef staða losnar á vinnustað hans.

Nánar um vernd trúnaðarmanna 
Vernd trúnaðarmanna gegn uppsögn af hálfu atvinnurekanda er hornsteinn þeirra  reglna sem gilda um trúnaðarmenn. Verndin er til að tryggja það að trúnaðarmaður  geti sinnt skyldum sínum án þess að eiga á hættu að vera sagt upp störfum vegna  þeirra. Verndin nær fyrst og fremst til þeirra starfa sem tengjast  trúnaðarmannsstarfinu en ekki daglegra starfa hans. Brjóti trúnaðarmaður alvarlega af sér í starfi má væntanlega víkja honum úr starfi og það er ekki tilgangur laganna að halda hlífiskildi yfir starfsmönnum vegna  alvarlegra brota í starfi. Það er ljóst samkvæmt þessu að vernd trúnaðarmanns í starfi er ekki alger og að  trúnaðarmaður getur þurft að hlíta uppsögn fyrir misfellur í starfi eða brot á þeim  starfsreglum á vinnustað, sem starfsmönnum er almennt skylt að hlíta.
Félagsdómur hefur fjallað um  vernd trúnaðarmanns í starfi í dómum sínum og  þannig hafa mótast ákveðnar reglur um vernd trúnaðarmanna fyrir uppsögn.


Þessar reglur virðast vera orðnar ansi sveigjanlegar. Að leggja niður stöðuna.  Hvar er verkalýðshreyfingin?  Er þetta eitthvað til að líta framhjá. Svo eru valdamenn hissa þótt illa gangi að semja.