mánudagur, 3. mars 2014

Heimsósómapistill á 67 ára afmælisdegi mínum

það er skrítið að lifa tíma sem gætu leitt til gjöreyðingarstríðs en enginn talar um það í alvöru

enn eru það stríðsherrar sem pungfrekjast og senda tindáta sína af stað á meðan aðrir stríðsherrar hneykslast á því eins og þeir hafi aldrei sjálfir gert slíkt 

allt út af skaga í Svartahafinu þar sem íslenskir stjórnmálamenn fóru í heilsu og sjúkraleyfi í boði 
sovéskrar alþýðu fyrir nokkrum áratugum 

við lifum furðulega tíma Pútín sem mér finnst ansi ógeðfelldur maður telur sig geta gelt og geðvonskast á kostnað nágranna sinna (líklega með stuðningi Kínverja sem vilja líka geta gelt í (Ó)friði á nágranna sína) 

Við boðberar friðar eigum ekki sæla daga SÞ sem áttu að vera talsmenn slíkra hugmynda verða aldrei nema handbendi stórvelda, við þurfum ekki annað en að hugsa til Sýrlands sem eru rústir einar í dag meðan heimurinn hefur allutr fylgst með sjónarspilinu 

svo ég hugsa bara um eigin sársauka í hnjám og baki á afmælisdaginn minn þegar ég er tekinn í tölu aldraðra

nú er ég búinn að bíða í 5 mánuði eftir að komast í hnjáliðaaðgerð og þarf líklega að bíða í 5 mánuði í viðbót 

þannig virkar heilbrigðiskerfi í velferðarríkinu Íslandi

smám saman minnkar hreyfigeta mína sterk verkjalyf gera ekki gagn, allir vinir og kunningjar spyrja um heilsuna og ég reyni að svara kurteislega, ég veit það eru margir sem hafa það verra en ég en einhvernveginn hugsar maður mest um sjálfan sig þegar maður skakklappast um íbúðina og einstaka sinnum í bæ eða út í búð 

á meðan valdamenn brugga göróttar eiturblöndur sem þeir hafa ekki hugmynd um hvaða áhrif þær geta haft á jörðina og enn eina ferðina er fólkið sem lifir á þessari jörð fórnarlömb lygamarða og svikapunga

og við, ræflarnir, bíðum og sjáum hvað setur, við getum lítið annað gert, stiginn hjá mér upp á þriðju hæð verður alltaf erfiðari og það tekur á taugar að hlusta á valdamenn þessa lands 

Þetta er heimsósómapistill minn á 67. afmælisdaginn