föstudagur, 15. janúar 2016

Kennitöluflakk.: Gætum Meðalhófs segir SA!!!


Kona mín hló svo mikið yfir tölvunni sinni í gærmorgun.  Ég var auðvitað forvitinn hvað gat verið svona skemmtilegt? Jú það var svo skemmtileg frétt frá Samtökum atvinnulífsins í Fréttablaðinu með þessari flottu fyrirsögn:

Varlega sé farið í baráttu gegn kennitöluflakki

Já þetta var eitthvað til að fara sérstaklega varlega gegn:  

 Samtök atvinnulífsins vilja að stjórnvöld gæti meðalhófs í baráttu sinni við kennitöluflakk. Í frétt á
vef samtakanna kemur fram að þetta sé afar mikilvægt og þó svo að „um sé að ræða mikinn löst í atvinnulífinu sem nauðsynlegt er að sporna við af festu, verður að hafa í huga að
um er að ræða fámennan hóp rekstraraðila sem vísvitandi brjóta gegn lögum og reglum.“
Þar segir jafnframt að það að herða á regluverkinu í baráttunni við aðila sem sýna af sér einbeittan brotavilja sé ekki til árangurs fallið og „mun aðeins bitna á þeim yfirgnæfandi meirihluta atvinnurekenda sem standa heiðarlega að sínum rekstri.“

Svo mörg orð voru það.  Meðalhóf er fallegt orð, á þá að loka augunum að einhverju leyti? Á að láta þá vera sem sýna einbeittan brotavilja?   Er það hlutverk yfirvalda?  Það er ýmislegt skrítið hugsað innan veggja SA!   

 Þar segir að stjórnvöld verði að beita öðrum aðferðum við að ná til þeirra sem brjóta lög og standa ekki skil á sköttum og gjöldum en takmarka möguleika fólks til að stofna til eigin reksturs, til dæmis herða á refsiákvæðum þegar rekstraraðilar verða uppvísir að skipulögðum undanskotum líkt og með kennitölu­flakki. Það sé grundvallarréttur einstaklinga að sjá sér og sínum farborða, leita sér atvinnu og stofna til reksturs í því skyni. Þessi réttur sé staðfestur í stjórnarskrá Íslands.

Nú á ég varla orð .......  er ekki sjálfsagt að takmarka möguleika þeirra að fara í eigin rekstur sem hafa brotið lög, skila ekki lögbundnum sköttum og gjöldum?  Er það hlutverk Samtaka atvinnulífsins að halda hlífiskildi yfir glæpamönnum? 

Alþýðusamband Íslands gerði gangskör fyrir nokkrum árum að rannsaka kennitöluflakk.  Þar kom í ljós að: 

Árið 2012 voru á Íslandi skráð 31 þúsund fyrirtæki með takmarkaða ábyrgð og fer þeim fjölgandi. Takmörkuð ábyrgð vísar til þess að sá/þeir sem að félaginu standa taka ekki á sig aðra skuldbindingu en þá að greiða tiltekna fjárhæð við stofnun félagsins. Að öðru leyti eru þær skuldbindingar sem gerðar eru í nafni félagsins á ábyrgð þess, ekki eigendanna. Dæmi eru um að einn og sami einstaklingurinn hafi farið með 29 félög í gjaldþrot á sjö ára tímabili.
Samkvæmt gögnum Creditinfo skiluðu einungis 22% félaga ársreikningi á réttum tíma árið 2011. Mikil fylgni er á milli þess að skila ekki ársreikningi og að vera í vanskilum því 72% þeirra fyrirtækja, sem ekki hafa skilað ársreikningi 2011, eru á vanskilaskrá.

 Það er eflaust hægt að segja að þessi gögn séu of gömul sem vitnað er til.  En við höfum ótal dæmi um notkun þessa flakks en það er skilgreint: 

Í sinni einföldustu mynd má lýsa kennitöluflakki sem skipulagðri aðgerð einstaklinga þar sem verðmæti eru tekin út úr einu félagi (hf./ehf.) og sett í annað félag en skuldir og aðrar skuldbindingar skildar eftir og félagið síðan sett í þrot. Mörg dæmi eru um keðju slíkra gjörninga vegna sama rekstursins þar sem sömu einstaklingar eru í forsvari. Fullyrða má að þetta athæfi kosti íslenskt samfélag tugi  milljarða króna á ári. 

ASÍ kom með tillögur í 16 liðum sem gætu hjálpað í sambandi við kennitöluflakk. Þarna tapar samfélagið tugum milljarða króna og ekki veitir af í samneysluna.  Er það hlutverk SA að vera varðhundur fyrir þá sem leika sér að illa skipulögðu kerfi?   Væri ekki nær að Samtök Atvinnuvega berðust gegna glæpsamlegri starfsemi í fyrirtækjarekstri?  Kveddu Alþingi að setja eðlilegan lagaramma um þennan málaflokk.  Spyr einfaldur bloggari í öngum sínum.  

Hér er skýrsla ASÍ :

http://www.asi.is/media/2702/Kennitoeluflakk-01102013.pdf