þriðjudagur, 2. ágúst 2016

Snillingar: Ung og hrifnæm

Það er hversdagslegt að hitta uppáhaldsrithöfundana sína á götu í Reykjavík.  Þeir eru svo nálægt manni, maður sér þá á kaffihúsi, leikhúsi, tónleikum.  Svo eru þeir vinir manns á Fésinu.   

Í gamla daga þegar ég var ungur, var ég svo hrifnæmur.  Við áttum það sameiginlegt ég og kona mín Bergþóra. Bækur, leikrit, höfundar, við féllum í stafi.  Augun snerust í hringi. Lífið breyttist, ekkert varð eins. 

Við bjuggum í Uppsölum í Svíþjóð í 3 ár.  Uppsalir er gömul og gróin háskóla og menningarborg.  Samt vorum við ekki alltaf í útstáelsi.  Íslendingar héldu vel saman og gerðum ýmislegt.  Mikill tími fór í kunningjaheimsóknir og móttökur.  Svo voru börn og uppeldi.  Við hefðum eflaust getað fundið ýmislegt að hlusta á og sjá.  En það var bara ekki tími til þess eða peningar. 

En bækur lásum við, kynntumst öndvegissænskum rithöfundum.  Suma lesum við enn, flestir eru dánir.  Einn af þeim er Sven Delblanc (1931-1992).  Hann var lesinn upp til agna svo var Hedebyborna gífurlega vinsæl framhaldsmynd sem hann hafði skrifað sjálfur eftir bókaflokki sínum: Åminne (1970), Stenfågeln (1973)Vinteride (1974) och Stadsporten (1976).  Svo hann var heimilisvinur eins og maður segir, úr fjarlægð. 

Einu sinni sáum við hann á götu, um hásumar, hann hafði sest niður til að hvíla sig í hitanum, var með hökutopp og gleraugu( það minnir mig minnsta kosti!) . Við hvísluðum : Þetta er Sven !!! Þetta var hann.  Þegar ég skoða það núna eftir á var hann tæplega fimmtugur. Við vorum milli þrjátíu og fjörutíu.  Við þorðum samt ekki að tala við hann!  Þarna sat þessi snillingur og hvíldi sig og við horfðum á dolfallin. 

Ég sé á wikipedia að ég á eftir að lesa nokkrar af bókum hans, ég las fyrir fáum árum Livets ax, bernskuminningar hans sem kom út ári fyrir dauða hans. Seinustu bók hans Agnar þarf ég að lesa.  En þeir sem vilja lesa Delblanc geta fengið eitthvað af bókum hans í Norræna húsinu og Þjóðarbókhlöðunni. Rafbækur eru til á Bokus.com.  Hedebysögurnar og Bókaflokkurinn um Vesturferð fjölskyldu hans og ferð til baka til Svíþjóðar eru frábærar. Samúels bók var þýdd á íslensku, hinar 3 komu aldrei út furðulegt nokk.   Svo eru tvær bækur í sérstöku uppáhaldi hjá mér:  Åsnabrygga og Grottmannen.   Ég veit ekki af hverju. 

En lesendur góðir, við sáum Sven Delblanc á götu í sólarhitasvækju. Við lifum enn á því!!