laugardagur, 20. febrúar 2016

Minningarorð: Að kveðja gönguvinina góðu

Það er öll okkar vegferð, að takast á við hinn eina sanna. hver sem hann nú er, sem tekur á móti okkur að lokum.
Góðir vinir okkar og samherjar hverfa á brott.  Þeir sem við höfum deilt ákveðnum tíma í skóla, vinnu eða áhugamálum. Svo hverfum við líka. 

Hérna sjáum við mynd af tveimur ljúflingum, sem gengu með okkur um fjöll og firnindi á Hornströndum.  Það var ekki alltaf auðvelt, þokudrungi hvíldi stundum yfir, regn og stormur.
Bragi og Guðmundur á  góðri stund

Aðra daga var  lífið dásamlegt, miðnætursólin blasti við,  allt í einu var maður í 25 stiga hita þarna norðurfrá þar sem átti alltaf að vera kuldi og kröm. 

En ....... þeir hverfa á brott, fyrir 2 árum var það Guðmundur Jóhann Hallvarðsson, fyrir mánuði  var það hann Bragi Óskarsson, það er svolítið sérstakt að ganga með fólki um fjöll.  Það er misjafnt hvernig það gengur.  Það var gott að ganga með honum Braga.  Hann var 12 árum eldri en ég, göngutaktur hans var samt eins og yngri manns.  Hann hafði jasstakt og fíling í fótunum uppi á fjöllum, líka þegar maður sá hann á jasstónleikum á Jómfrúnni að sumarlagi.  Hann naut þess að hlusta að spuna, þá var líf í hans limum. 

Það var gaman að skemmta sér með honum eftir erfiðan göngudag,  á Hesteyrum, í Hlöðuvík, á Horni eða í  Látravík.  Ölið glóði í glasi, bjarmi var yfir andliti,  ég tala nú ekki um það þegar þegar gítarinn var tekinn upp og söngur Hornstrandafara hljómaði yfir sólbjartar víkur, Þórsmerkurljóð, Spáðu í mig, Delila ég tala nú ekki um ef Guðmundur tók nokkur bönnuðu laganna. Þið vitið ekki hver þau eru.  Þá var lífið unaðslegt.

Bráðum förum við yfir móðuna miklu og finnum okkur góðar gönguslóðir, þá höldum við áfram að liða um fjallshlíðar og sjá skýin dansa fyrir neðan okkur.   Lífið getur verið svo dásamlegt. Hvar sem er.

Hin eina sanna fegurð