þriðjudagur, 13. október 2015

Spilling: Dúkkuheimilið okkar allra

Spilling er orð dagsins og vikunnar. 

Ekki líður dagur án þess að ríkisstjórnin dansi um völl, uppáhaldsdansinn er Spillingartangó. Ein og einn svífur í Heimskuvalsi.  Allt svo saklaust allt svo tandurhreint.  Það glitrar á gullislegið dansgólfið. 

Ég fór í leikhús í gærkvöldi. Þar var líka allt svo siðhreint, á yfirborðinu.  En undir niðri var margt óhreint mjöl í pokahorninu, eða á ég að segja sandkassanum.  Því leikritið var Dúkkuheimilið, eins og það heitir núna, þegar ég var ungur hét það Brúðuheimilið. Það þykir ekki fínt að láta ylhýra málið njóta sín.  Dúkka er langtum fegurra en Brúða.  Þetta var
smáútúrdúr.  Ibsen var sjáandi síns tíma, leikrit hans eiga enn við í dag, og með smákryddi leikstjóra og samstarfsmanna hennar þá verður þetta 140 ára leikrit ansi beitt.  Peningar skipta miklu máli, þeir flögra um í stofum heldriborgaranna. Jólagjafirnar eru gulli slegnar.  Allt er gert til að að halda öllu sléttu og felldu, ýmislegt skríður undir yfirborðinu en kemur öðru hverju upp á yfirborðið.  Hláturinn og skrækirnir breytast í þunga sorgaröldu. Leiksviðið er sandur og lýsing.

Eins og núna.  Það verður með hverjum degi ljósara að allt of margir ráðherrar ráða ekki við starf sitt það er svo ótalmargt gert til að hanga utan í ráðherrastólunum, haldið dauðahaldi um fætur og arma. En allt kemur fyrir ekki það eru langflestir búnir að sjá að leiknum er lokið.  Við verðum eflaust að bíða næstu kosningar.  Trúðaleikurinn heldur áfram, í nafni lýðræðis og meirihluta og fjárgræðgi.  Meðan við veltumst um af hlátri í leikhúsinu en grátum af sorg yfir skuggaleiknum þegar við komum heim. Rákir myndast í andlitsfarðann, allt klístrast og afmyndast. 

En lesendur góðir.  Hvað sem gerist þá vitum við hvernig þetta mun enda.  Nýju fötin keisarans eru í tætlum. Þá er það eina eftir. Spillingin blasir við okkur áhorfendunum í allri sinni eymd.  Tjaldið fellur.