sunnudagur, 15. desember 2013

Egill og Stefán: Húsbóndahollir

Sumir eru húsbóndahollari en aðrir, svo er um Egil Helga og Stefán Ólafs.  Báðir sæmilega greindir karlar en þeir vilja alltaf vera með lappirnar bæði á bryggjunni og í skipinu.  Og passa með því störf sín og stöðu.  

Auðvitað tekur Egill málstað Páls Magnússonar,  það á að ráðast á ráðherrann en ekki útvarpsstjórann. En karl sem lætur etja sér út í hvað sem er eins og Páll gerir er auðvitað búinn að missa traust flestra. En það er einn og einn eins og Magnús Einars og Egill.  Þeir hlýða á orð  útvarpsstjórans.   
Samanborið Egill hér: 
Sá misskilningur hefur verið uppi að standi til að loka Rás 1 eða eyðileggja hana. Samt hefur ekkert verið sagt í þá veru – ekki nema hvað menn hafa lagt út af orðum útvarpsstjóra um að Ríkisútvarpið þyrfti að hafa víða skírskotun og túlkað þau mjög frjálslega.
Þrátt fyrir niðurskurð heldur Ríkisútvarpið áfram að bjóða upp á menningarefni, fræðslu, fréttir og afþreyingu – því má ekki gleyma að RÚV á líka að skemmta. Landsmenn eru skyldugir til að greiða afnotagjöld – það eru ekki allir sem vilja hámenningu.
Það sjá allir nema þessar raddir meistarans  hvað er að gerast á RÚV. Það er verið að rústa dagskrárgerð, dágskrárgerð er ekki bara að lesa upp hvað eigi að spila eða flytja næst.  Það er að byggja upp þætti með sýn og hugsun, slíkum útvarpsmönnum er mörgum sparkað.   
Stefán Ólafsson hefur verið með sjálfstæðar skoðanir í ýmsu varðandi skuldaniðurfellingu.  Ég hef oft verið honum sammála.  En að geta ekki séð hvert ríkisstjórnin er að leiða okkur það er sorglegt.  Ótrúleg brellubrögð varðandi skuldaniðurfellingu.  Og að hafa sem fæstar skoðanir á fjárlögum.  Það er verið að skera ýmsa málaflokka á háls minnka fjármagn og leyfa auðugustu mönnum landsins að leika með fjármagn sitt, gjöld þeirra og álögur eiga að vera í lágmarki.  Þeir eiga auðmagn sitt. Þeir eiga Ísland. 

Þessi málgrein Félagsfræðingsins er dásamleg: 
Framsókn þarf að vara sig á þessari taktík Sjálfstæðismanna og sækja fram af festu á velferðarvaktinni.
Stefán heldur að Framsóknarflokkurinn sæki fram á þessu sviði, með formann Fjárlaganefndar í broddi fylkingar, hvað 
sagði hún í seinustu viku???? 

„Ég meina það voru kosningar í vor og það er mjög óeðlilegt að núverandi ríkisstjórn framfylgi stefnu fyrri ríkisstjórnar. Þetta eru ólíkar stefnur sem þessir flokkar standa fyrir. Við vitum það að vinstri menn vilja gjarnan hafa bótakerfið mjög öflugt og svo framvegis.“ 

Þetta er að vera á velferðarvaktinni. 

Hann heldur að hann geti sveigt þennan íslenska öfgaflokk inn á nýjar brautir þótt hann sé formaður Tryggingaráðs. Gagnrýnilaus fær hann að vera það áfram. En betra væri að sjá hann í fararbroddi í harðri og málefnalegri gagnrýni gegn vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar.      
Það er sorglegt að sjá þá félaga, Egil og Stefán, í þessu hlutverki sínu.  Að vernda húsbændur sína. 

 

John le Carré í sjónvarpinu: Merkur höfundur og aldafarsrýnir

Góð, dularfull, flókin, það er mynd Tomas Alfredsons um spæjarana í kalda stríðinu, Tinker, taylor, soldier spy.   Þeir
gætu nú fundið skáldlegra nafn á RUV en Kaldastríðsklækir. Þessir rúnum merktu andlit breskra stórleikara með vindlinginn í munnvikinu og viskýglasið í hendinni gera þetta svo trúverðugt og flækjurnar reyna ansi mikið á heilann.  

Það er merkilegt að hafa fylgst með þessum rithöfundi og kvikmyndagerðum hans í hálfa öld.  Allt frá Njósnarinn sem kom inn úr kuldanum til Tinker Taylor.  Ég hef lesið flestar bækurnar ef ekki allar.  Karla serían er mögnuð og ein og ein eftir það, ekki allar.  Og serían með Alec Guiness er með betri sjónvarpsseríum. 

 Þeir sem upplifðu ekki Kalda stríðið ættu að lesa eitthvað af þessum bókum. 24 árum á eftir því að það og andrúmsloftið sem fylgdi því ansi fjarlægt.  En Le Carré hefur líka gert góðar bækur síðar.  Constant Gardener sem fékk frábæra kvikmynd líka.  Absolute Friends, Our kind of traitor svo einhverjar séu nefndar. Hann er enn að skrifa á níræðisaldri. 

Eflaust hafa einhverjir geispað yfir myndinni í kvöld, en þeir sem sökktu sér í andrúmsloftið og hin mannlegu örlög og furðulega klæki á þessum tíma hafa haft það gott.  Ég gerði það minnsta kosti.  Þetta var ansi góð mynd. 

Fyrir nokkuð mörgum árum gekki ég um svæðið umhverfis Lands End á Cornwall, ég vissi ekki að þar á David Cornwell landsvæði allstórt.  En það er réttnefni le Carrés.  Kannski hef ég labbað á landareign hans.  Svona er lífið skrýtið.