Þar er ekkert sem breytist. Nú er jólahátíð óhófs og ofáts búin og þá er að setja sig í heilsugírinn. Það er dásamlegt að lesa miðjukálfa blaðanna og skoða heilsíðuauglýsingarnar og
fjórblöðungana. Nú á allt að verða betra á nýju ári. Lesa viðtöl við annálaða heilsuspekinga svo kemur öðru hverju, ég er að byrja með nýja hópa núna í jóga og hollu mataræði. Ég er í þessum þætti í sjónvarpinu. Og allt eigum við að borga, ekkert er ókeypis, hvorki námskeiðsgjöldin eða áskriftirnar.
Það er magnesium og kísill sem blívur. Hann doktor X hefur þetta allt á hreinu við höfum verið á sama reiki og hann lengi. Heilsubúðirnar fullar af úrvalsvörum. Þó að einhver læknir segir að þetta sé rugl, við séum full af magnesium af því að borða góðan daglegan mat þá látum við ekki okkar segjast. Því þetta er líka gaman, spennandi að upplifa eitthvað nýtt. Nú þarf ég að dansa inn í hráfæðið. Ég vissi af konu sem mætti alltaf með kálið sitt í öll matarboð, hún var ekki í samneyslu, nei. En þetta einkennir okkar samfélag, við eigum að velja sjálf, það er svo fátt sem við eigum að gera saman, ekki einu sinni borða. Þetta er orðin fíkn, heilsufíkn. Bráðum þurfum við námskeið og stofnanir gegn henni. Að frelsa fólk frá heilsufæðinu. Tólfsporakerfið; Ég heiti Erling, ég er Heilsufíkill.
Erum við svo hamingjusamari, líður okkur betur? Samkvæmt skoðanakönnunum erum við ein af hamingjusömustu þjóðum heims. En ..... svo kemur þetta sígilda en ......... við lifum í sífellt lagskiptara og stéttskiptari þjóðfélagi. Það eru margir sem koma ekki nálægt Heilsuþjóðfélaginu vegna efnahags, en þeir sem verða alltaf ríkari og ríkari þeir leika sér með skrokkinn sinn. Þeir eiga hann mega gera allt með hann. Fara til læknis í útlöndum, námskeið í útlöndum, fá sitt d vítamín í Suðurlöndum. Á meðan aðrir fá gleðina með því að fara á góðan skyndibitastað með glás af hitaeiningum. Það skapar líka gleði.
Já, lesandi góður, það er komið nýtt ár, ef þú færð
smásamviskubit yfir heilsueyðslunni, gefurðu bara í Rauða Krossinn eða Hjálparstofnun kirkjunnar. Þetta eru auðvitað þínir peningar eða þínar skuldir.