föstudagur, 14. mars 2014

Makríll: Ég trúi okkur ekki, sagði skáldið

Makríllinn er mál málanna, fiskur fiskanna, efi efanna.

Eitthvað fishy við þetta makrílmál. Ég trúi okkur ekki.  skrifaði skáldið (Hallgrímur Helgason)

Þetta hefur verið hugsun okkar margra.  Þegar stjórnmálamenn úr flestum flokkum lýsa yfir skoðunum sínum á Alþingi eða í fjölmiðlum. Hvort sem þeir heita, Sigurður Ingi, Steingrímur Joð eða Össur Skarp. Eitthvað slorlegt við þetta. 

Auðvitað eru ESB, Norðmenn og Færeyingar ekki að sýna stjörnuleik þar sem heiðarleikinn ljómar af þeim, þarna er á ferð dæmigerð valda og klækjapólítík, en við höfum svo sem tekið þátt í slíku á þessum vettvangi.
Um leið brenndu okkar samningamenn af þegar þeir þrömmuðu þungum skrefum út af vellinum  og skildu hina eftir í samningahug.  Það var afleikur af hæstu gráðu. 

  Hvern hefði getað órað fyrir því, ég var í Sundhöllinni á Seyðisfirði fyrir nokkrum árum, þar var maður með mér í gufunni og við tókum tal,  þá var þetta sjómaður á makrílsveiðiskipi sem hafði verið að sigla inn fjörðinn rétt áður.  Ætli þetta hafi ekki verið fyrsta alvörumakrílsárið fyrir okkur?

En hvað getur svo þessi flærðarsenna kennt okkur?  Ekki virðast stjórnmálamennirnir okkar hafa lært nokkuð eftir ummælum sínum að dæma.  Við eigum að muna Færeyingum þetta í næstu samningum við þá!! 
Ættum við ekki frekar að muna það hvar við búum, við hverja við höfum samskipti, hverjir kaupa framleiðslu okkar.  Við erum ekki ómissandi á taflborðinu.  
Og umfram allt eigum við að stunda hófsemi og virðingu í samningum við aðra.  Ætli við myndum ekki þá vinna okkur inn punkta, ætli yrði ekki meira tekið mark á okkur?  

Eigum við að trúa því að þeir sem hafa hafa haft uppi óbilgirni  í umhverfismálum hér uppi á landi leggi svo mikið upp úr því að láta náttúruna njóta vafans í hafinu?  Einhvern veginn á ég erfitt með að trúa því, eitthvað annað býr undir.   

Svo lesendur góðir, verum heiðarleg og nærgætin, þá verða stjórnmálahaukar það líka,  þá náum við góðum samningum með tímanum.  Það verður tekið mark á okkur á alþjóðavettvangi:  Hvalveiðar okkar, Grænlandsævintýri LÍÚ, utanríkisstefna núverandi stjórnar , þróunarstefna okkar,  sýna okkur að við eigum langt í land með það.  Lítum í eigin barm og bætum okkur. Það er aldrei of seint.