Skrítið: 2014 ekki 1914. Samt margt svo svipað, þessi bjartsýni manns um líf okkar á jörðinni oft svo haldlítil. Karlar taka sprett til að taka þátt í styrjöldum. Spurning um að lenda í Paradís eða Helvíti. Spurning um að vera Rússi og tilheyra Rússlandi. Vera tilbúinn að drepa
og myrða til þess. Nágranni þinn er allt í einu fjandmaður.
Það er merkilegt að lesa vinstri menn og byltingarsinna tala hátignarlega um að framið hafi verið valdarán í Úkraínu, aðrir tala um réttkjörinn forseta í Sýrlandi!!! Þau eru skrítin kattaraugun.
Meðan aðrir tala um Kaldastríðið nýja. Og valdamenn tala um beytingu kjarnorkuvopna.
Breytingarnar streyma yfir okkur, við fylgjumst varla með, arabíska vorið breyttist í arabískan frostavetur. Trúarníðingar safna sjálfboðaliðum víða um heim til að taka þátt í réttláta stríðinu. Við sjáum hausana fjúka í beinni. Appelsínugula byltingin breyttist í spillingarherfu. Svo fólkið fékk nóg, safnaðist saman á torgi, við ættum að kannast við það, við söfnuðumst saman á torgi. Loks sá forsetinn sitt óvænna og lét sig hverfa af sviðinu, skildi eftir minnismerki um enn einn spillingargossann. Húsakynni og lúxus í þessu fátæka landi. Eins og Gaddafi. Og ótal valdamenn á undan þeim, og eftir.
Já 2014 ekki 1914. Valdamenn auka stóryrðaflauminn, í alvöru eða ekki, við vitum það ekki.
Oft endar það með því að þeir verða að standa við stóru orðin. Þá er ekki snúið til baka. Þannig var það 1914. Verður það eins í dag?
Það eru fáir sem tala um frið. Stuðningur við NATO aldrei meiri, fáir mótmæltu
valdamönnunum í Wales. Og forsætisráðherrann okkar var ábúðarfullur á svipinn, nýbúinn að bjarga þjóðinni undan nauðungaruppboðshamrinum, eða hvað?
Allt sem við viljum ...............
Myndir: Höfundur