laugardagur, 25. febrúar 2017

Sakamál aldarinnar: Nú eru aðrir tímar!

Sakamál aldarinnar, sá sem veit ekkert um Geirfinns Guðmundarmálið hefur ekki verið mikið á ferðinni í fjölmiðlum;  búið erlendis, ekki lesið eða hlustað á fjölmiðla, nýfluttur til landsins.    

En nú kom úrskurðurinn 36 árum eftir dómana og enn tekst sérfræðingum að klúðra.  Skilja einn útundan (kannski þann mest brotgjarna í hópnum, hlustið á Ragnar Aðalsteinsson í fréttum RUV í gærkvöldi ).  Lesið blogg Illuga Jökulssonar i Stundin.is .  Lesið bók Jóns Daníelssonar.

Öll eigum við minningar frá þessum ólgutíma í sakamálasögu landsins.  Loftið var lævi blandið.  Út úr fangelsum stauluðust brotnir menn, en hinn snaggaralegi Sævar gafst aldrei upp,  þrammaði með möppur um götur bæjarins.  Í vonlausri baráttu sinni við lögfræðingaskara lýðveldisins. En stendur uppi sem sigurvegari árið 2017!!! Guðjón Skarp reis upp aftur með drottin á herðunum varð prestur á Staðastað. Ekkert varð samt eins hjá þessu fólki. 

Margir bera sektarbagga innan lögreglukerfisins eiga eflaust erfitt að líta í spegil. Vinnubrögðin voru fyrir neðan allar hellur. Mannréttindi einskis metin.  Enn eiga framkvæmdarmenn valdbeitinga þessa tíma áttunda áratugarins marga verjendur

Öll vitum við að þetta var fólk í rugli, hafði enga engilsásjónu, en þetta voru manneskjur, krakkar sem áttu feril misgjörða, höfðu aldrei fengið að njóta sín. Það væri gott ef við gætum hreinsað þessa afmán af þjóðarsálinni.  Svo við getum einu sinni sagt eins og skáldið: Nú eru aðrir tímar. Eða hvað?