Það er ágætistími til að lesa um þessar mundir. Og horfa á sjónvarp. Alla vegana í Reykjavík.
En svona er Ísland stundum er gott veður fyrir norðan og austar, stundum fyrir sunnan og vestan. Og það er óþarfi að fara á taugum:
Var að lesa tvær nýlegar John Le Carré bækur. Our Kind of Traitor (2010) og A Delicate Truth (2013).
Le Carré eða David Cornwell eins og hann heitir réttu nafni er kominn á níræðisaldur og enn er hann að skrifa. Við sem höfum lesið bækur seinustu áratugi, höfum fylgst með honum frá því að hann sló í gegn með The Spy Who Came in from the Cold, þriðju bók sinni, gleyptum bækur hans um erkinjósnanarann Smiley , lesið flestar seinni bækurnar þótt þær hafi misjafnlega höfðað til manns. Constant Gardener bókin og kvikmyndin tóku sprett um heiminn fyrir nokkrum árum. Og Tinker, Taylor, Soldier, Spy var kvikmynduð fyrir 3 árum við góðar undirtektir, í ískaldri útgáfu Thomas Alfredsons. Og bækur hans eiga ansi vel við um okkar tíma. Það er ekki hægt að segja að þessi öldungur fylgist ekki straumum síns tíma.
Our Kind of Traitor fjallar um ungt par, sem fer í hálfgildingsævintýraferð í Karabíahafið og kemst þar i kynni við rússneska skrítna fjölskyldu og hirð sem þar er á ferðinni. Þar er Guðfaðir sem ræður ríkjum en á undir högg að sækja fyrir yngri Mafíósum í Rússlandi nútímans. Og honum finnst gaman að æsa sig í tennis með unga breska karlmanninum. Svo brátt erum við stödd í nútíma sem við þekkjum, fjármálaglæfrum, njósnum og spennu. Ekki meira um söguþráðinn.
A Delicate truth segir frá skrítinni aðgerð Breta og Ameríkana til að ná arabískum vopnasala á sitt vald við Gíbraltar þar sem allt endar með ósköpum. Breskur dæmigerður embættismaður er fulltrúi ráðherra við þessa aðgerð og fær upphefð fyrir bragðið. En breskur hermaður bankar upp á 3 árum seinna og heimtar sannleikann. Þá fer margt af stað.
Það er svo gaman að lesa Le Carré,stíllinn svo fágaður og hann soddan snillingur að skilja mann eftir í óvissu. Það verður aldrei neitt straumlínulagað, um leið er þessi breski heimur, ríkisbubba, embættismanna, njósnara, menntamanna og hermanna svo furðulegur. Þetta verða svo meiri bókmenntir en hinar venjulegu glæpasögur, þótt glæpir komi við sögu. Ég er að hugsa að lesa aftur Smiley bækurnar og sjá þáttaröðina með Alec Guiness. Svo er ég að lesa bók Jóns Ólafsson Appelsínur frá Abkasíu. Meira um hana seinna.
Annar Breti á svo 100 ára árstíð Benjamin Britten, ég fékk kassa með 10 diskum á 2000 krónur á Amazon.com, Britten 100. Margt gott PeterPears að syngja Serenöðuna fyrir Tenór, Horn og Strengi. Pears og Britten spila Die Schöne Müllerin, til að sýna píanóhlið Brittens. Og margt annað góðmeti. Svo eiga allir að hlusta á War Requiem, meistaraverkið mikla.
Það er svo margt sem hægt er að gera í sólarlausu sumarfríi. Góðar stundir, lesendur góðir.