mánudagur, 1. júlí 2013

Árni Snævarr og fjórða valdið: Guð blessi Ísland

Ég dreg stundum að lesa það sem maður á að lesa sem skyldulesningu.  Þannig  var með grein Árna Snævars í nýjasta tölublaði Tímarits Máls og Menningar um fjölmiðlalíf og starf hans á þeim vettvangi sem endaði með sparki í afturendann  á honum út úr húsakynnum Stöðvar 2.  Þetta er sorgleg lesning, að fólk skuli leggja þetta á sig sem fólk verður að gera til að stunda vinnu i fjölmiðlum. Starfi sem þeir myndu vilja stunda alla ævi, atvinnu sem þeir elska.  Þar sem eigendur og handhafar valdsins telja sig geta hvenær sem er sýnt vald sitt, deilt og drottnað, það er sama hvort þeir heita Jón Ólafsson, Jón Ásgeir Jóhannesson, Páll Magnússon, Sigurður G. Guðjónsson eða Karl Garðarsson. Það er sorglegt að sjá það sem á að vera Fjórða valdið í okkar samfélagi misþyrmt og misnotað.   Fjölmiðlarnir.  Þar sem jafnvel talsmenn þessa valds lúffa og láta misnota sig og bera jafnvel úr býtum sæti á Alþingi. 

Það var svo merkilegt að lesa morguninn eftir hugsanir Guðmundar Andra Thorssonar um áróðursherferðina gegn eina fjölmiðli landsins þar sem atvinnumenn geta stundað vinnu sína í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til fjölmiðlafólks á heiðarlegum fjölmiðlum.  Þar á ég við rægingarherferðina sem Davíð Oddsson, Morgunblaðið og íhaldsfólk á Íslandi stunda gegn RÚV.  Fjölmiðlastofnun allra landsmanna.  Tilgangurinn er sá að gera atvinnufólk hrætt að stunda vinnu sína sem skyldi.   Þeir eiga að liggja hundflatir fyrir valdamönnum, hvort sem þeir heita Sigmundur Davíð, sem mér skyldist að hefði skrifað mikinn langhund í Morgunblaðinu í seinustu viku um ofsóknir fréttamanna á hendur sér fyrstu vikur hans á valdastóli, eða Ólafur Ragnar Grímsson, sem alltaf hefur verið klókur að nota aðra til að þjóna hagsmunum sínum og duttlungum. 

Það er auðséð að það á að þagga raddir þeirra sem reyna að segja sannleikann og fréttir sem þjóna ekki ríkjandi valdamönnum.  Þessi rógsherferð er upprunnin í Hádegismóum eins og margt seinustu árin eins og Guðmundur Árni bendir réttilega á.  Við eigum ekki að fá fréttir af eigendum Íslands, útgerðarmönnum, bankastýrendum og Lífeyrissjóðsgreifum.  Við eigum að vera þrælar sem beygja sig og bukta fyrir nýlendurherrunum sem geta ríkt yfir okkur og sagt okkur hvað á að gera og hvenær.   

Svo spurningin er ætlum við að lúta í gras eins og Bjarni Fel sagði eða að reyna að rísa upp og segja:  Nú er komið nóg!!! Guð blessi Ísland.


  




Fótbolti: Þegar heimurinn umhverfist í ballett

Mikið var gaman að sjá Brassana dansa yfir Spánverjana í kvöld.  Það er undirfurðulegt þegar boltinn umhverfist í ballett og list.  Allt í einu verður nýr heimur til fyrir augum okkar. Nýjar stjörnur sem glitra, Meyamar og varnarmaðurinn Louis, markmaðurinn Julio Cesar.  Evrópubúarnir áttu aldrei möguleika.  Krafturinn og leiknin í andstæðingunum var ótrúleg.   

Ég nenni ekki svo oft að horfa á boltann nú orðið.  En í kvöld var það þess virði.