Sumt var ansi billegt, Páls Óskars söngurinn, byrjunin og lokakaflinn ansi góð, höfundar og leikarar að taka sig alvarlega, skynja dramað í tilverunni. Umgjörðin steypubönkerinn hans Hitlers ansi innilokandi, eins og það átti að vera. Atli sem er einn af mínum uppáhaldsleikurum var ekki minn Bjartur. Þessi sjálfbirgingslegi deli sem eigraði um sviðið var einhver annars Bjartur. Minn er skepna en samt með ótal mannlegar hliðar. Þessi var bara deli, nema rétt í lokin.
Nú segir einhver, það er lítið að marka þennan hálfsofandi mann, það er alveg rétt. Kannski fer ég aftur, eða læt mér nægja þessa einu eða hálfu. Langbesti leikarinn í þessari sýningu var Vigdís Hrefna, þegar hún hvarf af sjónarsviðinu, varð sýningin ansi dauf. Ólafur Egils var alveg eins og Ólafur Ormsson. Guðrún Gísla var skemmtileg afslöppuð í því að gera ekki neitt.
En auðvitað hef ég ekkert vit á þessu. Ég veit þó að það var yndislegt að heyra Heyrt hef ég tíu milljón manns, flutt, þetta uppáhaldsljóð mitt. Örvæntingaraugnaráð Rósu út i sal var skerandi. Kennarinn að éta var viðbjóðslegt atriði. Þessi sýning hefur ýmsar hliðar og það var margt sem maður saknaði úr bókinni. Þegar allt kemur til alls er Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness en ekki Þorleif, Ólaf og Símon.
Svo farið og sjáið Sjálfstætt fólk og rífist svo í heimahúsum á eftir eða á börum borgarinnar. Sýnið að listin skiptir máli.