fimmtudagur, 28. ágúst 2014

Kristín Þorsteinsdóttir: Ný stjarna er fædd

Ný stjarna er fædd, Kristín Þorsteinsdóttir, hún fellir ritstjórnarkeilur eins og ekkert sé.  Hún veit betur hvað er auglýsing eða ekki.  Það er skrítið að hafa unnið á Fréttablaðinu um tíma og hafa ekki uppgötvað að hálft blaðið og rúmlega það er ein allsherjar auglýsing.  


Kristín hefur starfað vel að þjóna sínum herra, eigendum 365 og nú er hún komin til æðstu metorða.  Hún varð þjóðfræg fyrir sínar frábæru verndargreinar húsbænda sinna.  Eva Joly og afkvæmið, svo og Erum við verri en annað fólk, svo ég minnist á einhverjar. Sem fengu prýðisviðtökur og svör, t.d. frá Guðmundi Andra rithöfundi  og Hjalta Hugasyni guðfræðingi.  

Svo nú er hún komin út á almenning, Kristín aðalritstjóri, þar sem vinda blása, það er enginn leikur að þjóna bæði herrum fjármagns og herrum frelsis, mannréttinda og lýðréttinda, sem frjálsir fjölmiðlar eiga að gera.  

Kristín er mjög upptekin af því hvort fólk sem fengist hafi við fjármagn og fyrirtæki sé verra fólk.  Þetta er nú ansi viðamikil heimspekileg spurning og Hjalti, guðfræðingurinn fjallaði um þetta í grein sinni sem ég vísaði til. 

Þetta er stór hópur fólks þar sem stór hluti hans á um sárt að binda, vegna lögsókna og
rannsókna, en ótrúlegur fjöldi hefur samt haldið á fjármunum sínum, það þarf nú ekki nema að horfa á lífsstíl auðmanna í Reykjavík. Er þetta verra fólk?  Þetta er yfirstétt sem hefur misst öll tengsl sín við venjulegt launafólk.  Hugmyndir þess um lífið eru svo fjarri okkar að það er ótrúlegt.  Að eiga íbúð eða hús í Reykjavík, London, eyju í sænska skerjagarðinum, skíðaskála í Sviss eða stórhýsi á frönsku Rivierunni.  Og ef einhver kemst nálægt þeim sem ekki er jámaður og spyr spurninga.  Þá er svarið So what, ég á það, ég má það. 

Slíkt fólk á ekki að koma nálægt stjórn fjölmiðla.  Hvað þá þeir sem eigna sér hlut í fjölmiðli til að reka þann sem fletti ofan af fjármálaóreiðu viðkomandi.   Þá er illa komið fyrir frelsi hjá okkur.