föstudagur, 6. desember 2013

Og við sungum Frelsum Nelson Mandela

Og við sungum Frelsum NelsonMandela, þeir voru dagarnir.  Munið þið það þegar Suður-Afríka var ógnvænlegt ríki aðskilnaðar og ófrelsis.  Og innan múranna sat Nelson sem hét allt öðru nafni upphaflega en Nelson nafn stríðshetjunnar vösku hjá breska nýlenduveldinu hlaut það að verða. Hann varð lögfræðingur og baráttumaður eins og annar andstæðingur nýlenduherranna Gandí.  Þeir áttu það sameiginlegt að geta endurmetið baráttustöðuna og komið með nýja fleti sem hentaði ekki valdsmönnunum.  Með tímanum veiktist staða hvítu herranna í Pretoríu þessi fangi á Robbin eyjunni var á við heila heri.  Svo kom hann út, við sáum nýtt ríki verða til, ekki fullkomið, en með einhverja von um  nýja byrjun.  Við vitum ekki enn hvernig það mun enda.   Veröldin er ekki einföld og auðskilin.

Nú er hann horfinn á vit sögunnar segir Obama, ég veit það ekki, kannski verður það næsta baráttan að frelsa hann frá því hlutverki.  Hann var mannlegur, ekki fullkominn, en hann fékk hjörtu okkar til að slá hraðar.  Fasið, svipurinn, augnaráðið, þetta var allt sérstakt.  Allir sem hittu hann segja sögur. Sem sýna þetta sérstaka, hvernig hann kom að hlutunum á annan hátt enn aðrir.  Hélt ræður hvatti fólk til dáða við ómögulegt verkefni, að fyrirgefa og lifa í friði.  Eftir ótrúlega kúgun og harðstjórn.  Svo varð hann gamall og vissi hvenær hann átti að hætta, það geta ekki allir.  Hér eða annarstaðar..  

Fyrir fimmtán árum var ég í London og við, ég og kona mín gengum niður með ánni.  Þar sem stórar tónleikahallir rísa.  Þar var mikið um að vera í einni Höllinni. Stöðugur straumur af fólki út og inn, flest með dökkan hörundslit.  Við urðum forvitin og ákváðum að kíkja og sjá hvað um var að vera. Þegar við komum inn, aðgangur var frjáls, blasti við gleði og glaumur.  Stór blásarahljómsveit spilaði og fólk söng og dansaði og var  brosandi.  Þarna var verið að halda upp á áttræðisafmæli Mandela. Það var enginn annarr en Hugh Masakela sem spilaði á trompet og stjórnaði hljómsveitinni.   Það varð ógleymanlegt fyrir okkur að reika þarna um og sjá hreyknina í brosi og hreyfingum fólksins. Það var að fagna sínum manni.  Hann var líka okkar maður þann daginn.

 
Nú er hann horfinn. Það er langt síðan við sungum Frelsum Mandela.  Það verða margir sem vilja gera úr honum styttu og líkneski.  Gleyma erindinu sem hann í raun og veru átti við okkur.  Svo það verður örugglega þörf á að syngja Frelsum Mandela á ný.  Ekki bara í Suður-Afríku.  Líka hjá okkur.