föstudagur, 16. september 2016

Guðmundur Andri og Vanhugsuð orð Alþingismanna

Mikið áttum við dásamlega stund í síðdegis á miðvikudaginn . Þeir sem komu sér í Norræna húsið á fyrirlestur í tilefni af afmæli Sigurðar Nordal, 14. september.  Þar fléttaði Guðmundur Andri Thorsson saman hugmyndum Sveinbjarnar Egilssonar og Sigurðar Nordal um gæsku, mennsku og lífsgæði.  Sveinbjörn var sem kunnugt er rektor Lærða skólans  og Bessastaðaskóla, þýddi Kviður Hómers og fjölda ljóði  og orti sígild og ógleymanleg ljóð og barnaljóð sem við flest vorum alin upp við; Fljúga hvítu fiðrildin, Bí bí og blaka, Sigga litla systir mín. Sigurður Nordal var helsti andans maður okkar á 20. öld, margar hugmyndir sem okkur finnst sjálfsagðar, um söguarfleifð okkar, uppruna og hugmyndir eru frá honum komnar.  Andra tókst að flétta saman hugsanir þeirra svo unun var að hlusta á, það er sjaldan sem ég verð uppnuminn á fyrirlestrum nú til dags. Líklega orðinn svo gamall að ég er búinn að heyra allt!  En þessi miðvikudagur verður lengi í minnum hafður hjá mér. Þökk sé Guðmundi Andra og Stofnun Sigurðar Nordal. 

Sömu daga dundi yfir okkur orrahríð vanhugsaðra orða. Þar sem alþingismenn reyna að ná sér niðri á andstæðingum sínum með durtslegum hætti og illa ígrunduðum orðum.Brjóta allar reglur í umgengni og vinnubrögðum.  Þar á ég við svokallaða skýrslu sem Vigdís Hauksdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson lögðu fram á Alþingi í nafni meirihluta Fjárlaganefndar.  Sem betur fer er svo um okkur Íslendinga að gamlar hefðir lifa, ein af þeim er háðsvísan og vinir mínir á Fésbókinni eru margir hagmæltir vel og margar vísur hafa oltið fram seinasta sólarhringinn.  Hér eru nokkrar, ég tilgreini ekki höfunda enda örugglega ekki til þess ætlast.

Á þinginu er lúið lið
sem líkar best að þjarka,
þæfa mál og þumbast við
með þrútinn svigurbarka.

Það er ekki heiglum hent
að hefja segl að hlunni.
Dálaglega döpur mennt
að dissa íslenskunni.

Alveg er ég á við tvo.
Ekki er ég neitt tregur.
Ég er orðinn svei mér svo
svigurbarkalegur.
æ smá þegnskylduvinna...

Svíramikil, "svigurbarkaleg"
Svigdís ætíð "svarar fullum munni".
Þvagyrðingur þekktur, pásutreg,
hún þrælast við að "dissa íslenskunni".

Við sjáum á þessum skrifum alþingismannanna að sá sem hefur ekki vald á tungumáli sínu hefur ekki vald á hugsunum sínum. Því verður engin hugsun lifandi um góðmennsku og lífsgæði hjá þeim.