Við viljum flest borga meiri skatt. Eigum við ekki að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um skattheimtu??? Það er eina ráðið í augnablikinu, engir vilja fjárfesta hjá fólki sem hegðar sér eins og við. Horfumst i augu við það. Við sjálf verðum að borga.
Hr heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson
Í vor féll ég af baki hests og hlaut af því brot og brák á rifjum nokkrum. Læknakandidat sem leit á mig asnaðist til að hlusta mig í kjölfar fallsins. Það sem hann heyrði var eigi fagurt og vísaði hann mér hið snarasta til hjartalæknis á Akureyri (Jón Þór Sverrisson(.
Ekki höfðu hjartaóhljóð gullhjartans minnkað. Var ég því sendur í þræðingu á Landsspítalann (LSH) og grunur hans staðfestur um sjúkdóm í hjarta.
Hvort sem það er vegna pizzu-, pítu- eða pulsuofáts þá var mér tjáð að ég yrði að koma í hjáveituaðgerð eins fljótt og mögulegt væri.
Tók ég þessum tíðindum karlmannlega eins og mín var von. Félagar mínir í Tromsö voru gáttaðir á að svona gott gullhjarta væri að slá feil. En svona var það.
Fyrir rétt rúmri viku síðan fékk ég svo boð um að mæta mánudaginn 23. september 2013 til undirbúnings og skráningar vegna aðgerðar miðvikudaginn 25.september. Biðin var því löng, rúmir tveir mánuðir. Þar sem hér væri um stóra opna hjartaaðgerð að ræða, væri ég frá vinnu í allt að 3 mánuði. Tilkynnti ég vinnuveitenda mínum og samstarfsfólki við háskólann hvernig mál stæðu og olli það nokkrum kvíða og vandræðum.
Ekki var um það að fást og mætti ég á tilsettum tíma mánudaginn 23. september. Margt afbragðsstarfsfólk tók á móti mér á hinum ýmsu sviðum og var hið ljúfasta. Dugnaðarforkar sem komu sínu vel til skila. Undirbúningur þessi tók hátt í 6 tíma með öllu.
Morguninn 25. þvoði ég mér með opinberri sápu frá spítalanum og var mættur kl 07:00. Afklæddist ég og naut þess að klæða mig í opinberar nærbuxur og öfugan slopp auk opinberra sokka. Eftir rakstur ofan og neðan og allt um kring var mér rennt í rúmi til lokaundirbúnings. Setja átti upp nál og gefa mér eitthvað kæruleysandi. Rétt í þann mund er sprautunálin hitti hörund mitt var kallað “stop, stopp sendið unga manninn (mig!) tilbaka”. Mér var tjáð að aðgerð frestaðist. Klukkan 9:40 var aðgerðin blásin af. Gjörgæsla full. Ég fór úr hinum opinberu nærklæðum og yfirgaf spítalann, nestaður meiri sápu frá hinu opinbera. Skyldi koma daginn eftir, fimmtudag.
Allt var eins fimmtudaginn, nema að það var ekki fyrr en klukkan tíu að aðgerð var blásin af. Gjörgæslan ennþá meira full. Ég rétt náði að afþakka kæruleysissprautuna og verkjastillandi. Læknir minn kom og ræddi við mig. Var raunar miður sín og tilkynnti mér að hann hefði ekki hugmynd um hvenær yrði af aðgerð. Gjörgæslurýmin væru full og hann gæti ekkert við því gert.
Enn minna gat ég nú gert. Á nærbuxum hins opinbera með lokaðar kransæðar verður maður ósköp smár og rífur ekki kjaft svo glatt. En ég sagði honum og hjúkrunarfólkinu að ég liti svo á að kerfið á spítalanum væri hrunið. Ég hefði lesið um vandræði spítalans en aldrei hefði mér dottið í hug að heilbrigðisþjónustan væri í raun hrunin. Þegar eina lausnin á vandræðum spítalans, til að stytta bið og auka rými, væri ótímabært fráfall sjúklinga - þá væri heilbrigðiskerfið hrunið.
Nú er ég kominn að kjarna málsins.
Hvernig stendur á því að flöskuháls í meðferð sjúklinga LSH er gjörgæsla. Atriði sem í raun er einfalt að bæta úr.
Á sama tíma og ég mætti engu öðru en fagmennsku og ljúfmennsku hjá starfsfólki spítalans rann upp fyrir mér að einhverjir hafa tekið ákvarðanir sem hafa leitt af sér hrun eins besta heilbrigðiskerfis í Evrópu. Þessir einhverjir eru stjórnmálamenn og skriffinnar ráðuneytanna.
Vesalings starfsfólkið skammast sín fyrir ástandið. Vilja allt gera til að bæta úr og gera allt sem er þeim mögulegt til að hlutirnir gangi. En það bara dugar ekki. Kerfið ER hrunið.
Það er óásættanlegt að ein besta deild þessa sjúkrahúss, hjartaskurðdeildin, sé svo máttlaus að hún standi auð, STANDI AUÐ, vegna þess að deildin kemur ekki sjúklingum frá sér. Það er hneyksli og heimska. Hvaða „sparnaður“ er í því fólginn að hafa fjölda fólks á launaskrá, sem getur ekki, vegna aðstöðuleysis, unnið sína vinnu. Hvað kostar það sjúklingana, atvinnulífið, þjóðfélagið?
Hver vill vinna á svona vinnustað þar sem heimskan öskrar á mann? Þrátt fyrir alla kunnáttuna, færnina, reynsluna og kostnaðinn, þá er deildin óstarfhæf vegna heimsku. Stjórnunarheimsku. Ímyndaður sparnaður. Færustu læknar standa á göngum og eru að reyna afsaka aumingjahátt og heimsku í skipulaginu, afsaka rangan niðurskurð og misskilinn sparnað, í stað þess að sinna sínu starfi eins og þeir vilja auðvitað helst.
Við erum að ræða um deild á LSH sem er í fremsta flokki í heiminum hvað varðar árangur eftir aðgerðir. Í fremsta flokki í heiminum.
Stjórnendur spítalans eða ráðuneytisfólk veit greinilega ekkert hvað fer fram INNAN VEGGJA hans. Því síður býður þeim í grun að einangrun INN Í VEGGJUM gamla spítalans sé korkur frá 1926, korkur, haugblautur af leka, vegna vonlauss og vitlauss viðhalds. Aldnir veggir spítalans gráta sveppasýktum tárum yfir heimsku mannanna, inn í vistarverum starfsfólks og sjúklinga.
Færustu sérfræðingum spítalans er boðið upp á myglað og heilsuspillandi húsnæði. Aðeins boðið upp á rangindi stjórnenda og svik stjórnmálamanna. Hver getur ætlast til að færir fagmenn vinni við slíkar aðstæður? Eyðileggi heilsu sína og orðspor? Endi með því að vera sjálfir hjálparþurfi, en gætu við eðlilegar aðstæður og vitrænar ákvarðanir aukið lífsgæði, bjargað lífi, eflt okkar dáð.
Vel getur verið að ofangreint sé öllum ljóst. En það dugar bara ekki. Skiptir ekki máli. Eins getur vel verið að mér verði nuddað uppúr því að þetta brenni á mínu eigin skinni. Sé þess vegna svo mikilvægt. Það skiptir heldur ekki máli. Um peninga getum við líka rætt. Þeir skipta raunar ekki máli. Aðalatriðið er að starfsemi Landsspítalans Háskólasjúkrahúss er hrunin.
Og hvað ætlar þú að gera í því?
Það skiptir máli.
Þinn vinur og félagi
Sigurjón Benediktsson tannlæknir MS
Tromsö,Noregi (já og norðmenn hefðu borgað fyrir aðgerðina!)