þriðjudagur, 30. júlí 2013

Húsafell: Heimsókn til galdramanns

Stundum hittir maður á augnablik í lífinu sem eru svo merkileg, svo einstök, að maður verður uppnuminn. Slíkt gerðist í dag hjá okkur hjónunum. Við vorum á heimleið eftir skemmtilega dvöl á Húsafelli hjá vinum okkar og ánægjulega tónleika á Reykholtshátíð.  Þá ákvað kona mín að við kæmum við á sjálfum Húsafellsbænum þar sem kunningjakona okkar hafði sagt að Páll á Húsavelli, alheimslistamaður, væri að fara að opna sýningu. Við keyrðum heim að kirkjunni og kíktum við í fjósinu og sjá þar var Páll að ræða við gesti, tveir af þeim var fólk sem við könnuðumst við skylt Páli, foreldrar fyrrum kórstjóra míns.  Svo hann fylgdi okkur um nýja sýningu sem hann er að setja upp þar sem fólk getur séð þennan dásamlega heim Páls þar sem náttúrukyngi og listræn alúð mætast, hann er einstakur handverksmaður.   

Páll er bæði  sveitamaður í húð og hár, tengdur átthögum sínum órjúfanlegum böndum.  En hann er líka tengdur öllum heiminum í myndlist og tónlist.   Við sáum myndir af sveitungum, kunningjum og ættingjum hans, þrykkmyndir af tónlistarmönnum allra tíma, lífs og liðnum, Lizst, Cecilia Bartoli og Björk hlið við hlið. Þrykkmyndir af steini og klaka.Steinklumpa sem verða að sem fis í höndunum á honum. 
Hann sagði frá verkum sínum á sinn látlausa hátt, spilaði fyrir okkur á ótal hljóðfæri sem hann hefur setta saman úr steinplötum úr heimafjöllunum og jurtum náttúrunnar.  Hann fylgdi okkur út í súrefnisturn sem er nún listaturn þar sem steinverk hans þekja alla veggi, fór með okkur í myrkrakjallarann þar sem hann lýsti listaverk sín upp með vasaljósi meðan við stóðum í myrkrinu. Hann fór með okkur á efstu hæðina þar dró hann vatnslitamyndir upp úr skúffum, við sáum dagbók hans með ótal skyssum.  Svo var endað í skemmu þar sem fleiri hljóðfæri tóku við, alls staðar voru  töfrar, tónar.

Svo enduðum við í kirkjunni og enduðum í kirkjugarðinum fyrir framan leiði Snorra annars galdramanns sem dvaldi á þessum stað forðum. Já, töfrar og fjölkyngi eru enn til.