Satt að segja var ég hreykinn af því fólki sem stóð með verðlaunagripi í höndunum í gær á Bessastöðum. Andri Snær Magnason, Sjón og Guðbjörg Kristjánsdóttir. Þessi þrjú mynda eina heild. Við höfum umhverfissinna og baráttumann sem hefur náð til breiðs hóps lesenda á
öllum aldri, svo er það Sjón, mannréttindafrömuður og talsmaður utangarðsmanna. Svo er Guðbjörg, fulltrúi þess fólks sem vinnur að viðhalda og auka lendur og víðerni íslenskrar menningar fyrri alda.
Ræðurnar þeirra sýndu þessa stöðu þeirra, það hefði verið gaman að hafa ræður þeirra til að vitna í en ekki hef ég fundið þær á netinu. Andri Snær talaði um þá þversögn að þurfa að vinna að ritstörfum á tímum þegar þeirra hlutverk er frekar að vera í baráttu fyrir umhverfi og betra mannlífi. Hann tók meira að segja dæmi vorra daga, Þjórsárver, Gálgahraun og pólitíska ráðningu í útvarpsráð þar sem einum helsta menningarfrömuði landsins er sparkað út til að koma flokksgæðingi framsóknarflokksins inn. Það var gott að hann gerði það á þessum stað á Bessastöðum, staðnum þar sem æðsti fulltrúi kosinn af þjóðarinnar ætti að sitja og hlúa að menningu og betra mannlífi. Sjón talaði um stöðu utangarðsmanna, samkynhneigðs fólks sem oft þurfti að lifa við aðstæður sem hlutu með tímanum að naga í sundur hjartaræturnar, nefndi þá sem höfðu gert þessa bók mögulega, Elías Mar og Alfreð Flóka og tileinkaði hana frænda sínum Sævari Geirdal sem dó úr alnæmi. . Guðbjörg ræddi um þetta einstaka verk sem við eigum, Teiknibókina, þetta verk sem ég heyrði aldrei minnst á í háskólanámi í íslensku. Sem á fyllilega að verða þekkt um okkar menningarsvæði þar sem það er eina sinnar tegundar á Norðurlöndum.
Satt að segja varð ég hugsi eftir að hafa hlustað á þessa athöfn. Hvað þetta fólk okkar er sterkt. Það lifir í samfélagi þar sem það sætir stöðugt gagnrýni að stunda sína köllun. Þar sem fólk heldur að listamenn séu afætur á þjóðfélaginu sem murka peninga af okkur hinum launafólkinu. Þótt maður viti annað, vonandi boða okkar tímar að listamenn taki kraftmeiri þátt í þjóðmálaumræðu. Það hefur heldur hallað á það seinni árin, þótt ég sé ekki að tala um alla. Við eigum svo kraftmikla sveit lista, vísinda og menningarfólks. Gott væri ef við gætum sagt það sama um ráðamenn sem nú sitja við völd.