þriðjudagur, 29. nóvember 2016

Gaggalagú: Brún egg og Sjúklingar

Nú titrar þjóðin út af eggjum, hænum og eftirliti. Enginn vil vera maður með mönnum nema taka þátt í eggjakastinu á Brúnegg.  Aldrei hefur komið jafnskemmtilegur maður í fjölmiðla að verja frjálsa samkeppni (eggjafyrirtækin eru mörg).  Eftirlitsfólkið var dásamlegt.  Það var svo sárt að ekki var farið eftir ráðleggingum þeirra.  Og bréfið fræga týndist í ráðuneytinu, auðvitað hjá Gunnari Braga!

Sumir vinir hugsuðu það sama og ég.  Það eru til fleiri varðmenn hænunnar en gamla fólksins á Íslandi.  Um leið barst málgagn eldri borgara inn hjá mér þar sem Benedikt Jóhannsson fræðir okkur um það að elli lífeyrisþegar hafi aldrei haft það betra.  Þarf meira til að sannfæra okkur? Svo er þetta góður tími til að ræða egg.  Allir í jólabakstri, nauðsynlegt að hafa góð egg.  Margir eflaust búnir að hamstra strax í dag.  Það er örugglega skortur á hvítum eggjum,  við viljum ekki lituð egg né kynblendinga. 

4 af 6 stjórnmálaflokkum virðast ekki vilja bjóða upp á hærri skatta.  Það eru bara VG og SF sem hafa talað um annað.  Skatta þurfum við til að bjóða upp á betri heilsugæslu.  Vilja ekki allir flokkar betri heilsugæslu.  Eða var það bara fyrir kosningaáróður.  Þannig að gamalt fólk og sjúklingar með ótal sjúkdóma verður að bíða á göngum eftir því að komast í aðgerðir eða að komast í stofnanir þar sem það fær eðlilega þjónustu.   Seinustu 5 árin hefur engin aukning verið á fé í þann málflokk hlutfallslega  (8,6 - 8,9 prósent af GDP samkvæmt OECD :  Healt at Glance.)  

Hvaða samkomulag haldið þið að xD og xV gera til að mynda stjórn????  Við bíðum, varla spennt.   




Hérna eru dæmi um Fésbókarvini míni í gærkvöldi og morgun: 



Ó, þú hneykslunarelska þjóð. Hversu mörg ykkar kaupa mjólkurvörur frá MS nokkrum sinnum í viku? Hversu mörg eru í viðskiptum við Vodafone eftir trúnaðarupplýsingalekann þaðan? Þarf ég nokkuð að halda upptalningunni áfram?

Auðvitað er það tilviljun en eigandinn hefur verið í framboði bæði fyrir Vöku og Sjálfstæðisflokkinn. Gaggalagú

Er það virkilega raunhæft að vonast til að þjóð sem telur hörmungar fólks af öðrum þjóðernum sér að mestu óviðkomandi, og vanrækir sína eigin sjúklinga og gamalmenni, taki skyndilega upp hjá sér að sýna skepnum mannúð?

Horfði seint og um síðir á þetta eggja-Kastljós. Það var illa unnið. Fréttadrengurinn með skeggið eins og krókloppin vannærður hvítur Ítali [sem er hænsnategund þið þarna 101 rottur] og það vantaði líka alveg frambærilega áhrifsmúsík undir dramatískustu skotin; dauða mús og lirfur - berrassaðar hænur og möppurnar hjá MAST. Annars er ég góður. Hef aldrei keypt brún egg, kaupi bara hvít egg úr innrömmuðum búrhænum og ætla að halda því áfram - geðheilsa mín er á því stigi að ég offra henni ekki með byltingarkenndum umsnúningi eins og þeim að fara allt í einu á gamals aldri að éta brún egg - fokdýr. Ekki kalla mig harðbrjósta. Nú sýnist mér hvort eða er allir komnir - 3. klst. síðar - út í hagræna útreikninga og niðurgreiðslueftirsjá á meðan hænan rotnar; lirfan fitnar og músin dansar.

Það verða aldrei oftar keypt brúnegg á þessu heimili en við munum halda áfram að horfa á Tryggva á Rúv. Læt embættismennina eiga sig í bili. Ekki veitir þeim af sparki í rass frá þeim sem hafa umboð til að sparka í rassinn á þeim.

MS, SS, salt, sykurskattur, gosdrykkjaframleiðendahagsmunir, náttúrulaxeldisspilling, lyfsölukerfi, hringamyndun, samkeppniseftirlitið, egg, hænur, lífræn vottun, salat sem ekki er salat, Íslendingar eru eymingjar. Aumingja Ísland.

Þetta er svo kaldrifjað og lýsir einhvers konar ískaldri fyrirlitningu í garð neytenda, sem borga 40% hærra verð fyrir eggin í þeirri trú að sómasamlega sé búið að dýrunum sem eggin eru fengin frá. Þetta snýst ekki bara um þetta tiltekna fyrirtæki heldur sýnir þetta landlægan hugsunarhátt, menningarástand, djúprætta spillingu sem verður til í rekstrarumhverfi þar sem neytandinn á engan rétt en „framleiðandinn“ nýtur verndar út yfir gröf og dauða.

Þjóðinni brá í Brún...

Aldrei hef ég séð umræðuefni leggja undir sig Facebook einsog brúnu eggin.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli