þriðjudagur, 10. desember 2013

Bjarni Ben og Venjulega fólkið

Það eru skemmtilegar umræðurnar á Alþingi og þar fá húmoristar eins og Bjarni Benediktsson að njóta sín.  VG lagði fram smábreytingar við Fjárlög:  

Tillögurnar ganga út á að falla frá lækkun á miðþrepi tekjuskatts, framlengingu auðlegðarskatts og hækkun á sérstöku veiðileyfagjaldi á útgerðirnar í landinu. 

Bjarni er að vanda  fljótur að finna kjarna málsins enda ofursnjall:  

Bjarni segir VG vilja seilast í „vasa venjulegra Íslendinga“. 

Auðvitað veit Bjarni allt um Venjulega Íslendinga, hann er líka þaulkunnur vösum þeirra, hann hefur alist upp við það eins og margir yfirstéttarburgeisar að nota lögfræðinga eða menntun sína til að forðast skattgreiðslur, svo að lágtekjufólkið fái að borga sem mest. 

Og líklega flokkar Bjarni þá í þennan flokk sem  venjulega Íslendinga vini sína og kunningja  sem þurfa ekki að borga auðlindaskattinn, sem þurfa ekki að borga hækkun á veiðigjaldi. 

Þess vegna getur hann kinnroðalaust komið með þá hugmynd að lækka barnabætur og vaxtabætur til bóta fyrir Sjúkrahúsin, hann þekkir ekki  lífskjör þess fólks sem nýtur þessara hlunninda. Hann hefur aldrei hitt slíkt fólk. 

Ætli ég flokkist ekki undir þá sem fái lækkun á miðþrepi tekjuskatts sem ellilífeyrisþegi.  Ég segi nú bara eins og konan í Fréttablaðinu í dag. Ég kæri mig ekkert um þessa lækkun, ég vil langtum frekar að þessar krónur renni í Heilbrigðis og félagskerfið. Þær nýtast betur þar en hjá mér.

Bjarni þekkir vinnandi fólk landsins, allir vita það, það eru þessir Venjulegu Íslendingar sem Bjarni ætlar að hjálpa að finna fyrir auknum  kaupmætti   fjármagns síns, það verður hrópað húrra fyrir honum í áramótaveislum LÍÚ og ritstjórinn  knái klappar honum á öxlina og skálar við hann, fyrir venjulega fólkinu. 


Stefna stjórnarinnar er skýr að mati Bjarna.„Hún er fyrir vinnandi fólk í landinu sem mun upplifa vöxt í kaupmætti ráðstöfunartekna á næsta ári ólíkt því sem mundi gilda ef við færum eftir nýjum fjárlagatillögum Vinstri grænna sem seilast beint ofan í vasa venjulegra Íslendinga sem eru úti á vinnumarkaðnum vegna þess að falla á frá hugmyndum um að lækka tekjuskattinn,“ sagði hann í umræðum á Alþingi í dag.



Engin ummæli:

Skrifa ummæli