Hvít jól, einhvern veginn finnst manni vera svo langt síðan Reykvíkingar upplifðu slíkt. Kannski fáum við að rifja upp kynnin núna, með ófærð og alls kyns leiðinlegheitum. Eins og veturnir 83 og 84 ef ég man rétt. Þá var kalt að bera út Tímann og Þjóðviljann í Skerjafirðinum. Erfitt að komast í og úr vinnu.
Og þó, það er gaman að rifja upp snjóhvít jól á árum áður. Ég bjó í Borgarnesi í 10 ár. Þá voru stundum alhvít jól. Ég man þegar við paufuðumst gallaklædd upp á Þórólfsgötu að gefa ketti mat og kíkja á hann, foreldrar hans voru í útlöndum. Þá var alvöru snjór. Gönguferðir í nágrenni bæjarins voru margar og dýrlegar. Með risastórt gult tunglið yfir Borg og Egill á sveimi í kringum mann.
Síðan vorum við í Austur-Húnavatnssýslu í 5 ár, þá voru hressilegir frostavetur, allt niður í -25 stiga frost. Við fengum okkur göngutúr, framhjá hestastóði, greyin hímdu í ískaldri ísþokunni, ætli þeim hafi ekki verið kalt? Það var dýrlegt að ganga niður að Svínadalsvatni í frosti og stjörnubjörtum himni með vott af norðurljósum. Með hund á undan og kött á eftir. Og fara síðan í heitan pott við laugina, vaða yfir snjóskafla og hlamma sér í sjóðheitt vatnið. Þá hugsaði maður stundum, er lífið ekki dásamlegt?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli