mánudagur, 19. ágúst 2013

Hamingja

Ég var að hugsa um hamingju í gær.  Það er svo sjaldan að fólk gerir það svona yfirleitt.  Og flestir skammast sína að nefna slíkt á nafn opinberlega.  Ég var á gangi í Laugardalnum eins og oft áður, ég bý svo vel að búa við hliðina að þeim sælureit.  Þar sem gróður og mannlíf hefur stöðugt meira vaxið og þróast frá því að ég flutti í bæinn aftur fyrir 11 árum.  Ég var líka með eitt barnabarnið með mér en þau eru 7, varla er nokkurt meira verðmæti en þau.  Í fjarska drundi í áhorfendum á bikarúrslitaleiknum í knattspyrnu. Það komu hávaðadrunur frá æstum og glöðum áhorfendum öðru hverju.  Ég hugsaði með sjálfum mér að voðaleg truflun þetta væri.  En svo fór ég á hug í dýpri hugsanir.

Þess vegna fór ég að hugsa um hamingju.  Hversu oft þarf lítið til að gleðjast í lífinu. Keppni tveggja liða veitir ómælda gleði og um leið jafnvel sársauka.  Að þramma út í garð í góðu veðri með barnabarni er sæla.  Á einhvern óljósan hátt sem erfitt er skilgreina nema með orði eins og hamingja.  Þetta er svo sem ekki djúp speki.  En þetta er nokkuð að hafa í huga þessa dagana. 

Það er vert að velta fyri sér hvað gefur lífinu gildi.  Eflaust hefur maður gert mistök í því.  Hver gerir það ekki? En hvað er það sem vekur slíkar kenndir í dag.  Þegar maður lítum um öxl.   Á maður að spyrja svona?   Hjá mér er það fjölskyldan, listir, tónlist og bókmenntir hafa alltaf haft djúpstæð áhrif á mig. Líka myndlist þótt ég hafi vanrækt oft að fylgjast með sem skyldi.  Seinustu dagar hafa verið sæludagar hjá mér.  Heimsmeistaramót í Frjálsum íþróttum hefur verið í gangi og ég hef setið rígnegldur yfir sjónvarpinu.  Algjör sæluhrollur oft í vikunni.  Hlaup, köst, stökk.  Litlar þjóðir geta orðið að stórveldum þar.  Eins og Jamaica. Ótrúlegt er hversu hreyfingar líkamans geta komið af stað spennu og róti á hugann.  

En það er margt sem veldur óró.  Hjá mér eru það oft og tíðum stjórnmál og opinber mál. Mér finnst ótrúlegt hvaða menn fólk kýs yfir sig. Hversu vanhæft fólk velst til þessara starfa.  Því þetta fólk  á að ráða skipan okkar samfélags um margra ára skeið.  En um leið er ég kominn á þá skoðun að maður eigi ekki að látta þetta setja líf manns úr skorðun. Lífið er of mikilvægt til þess.  Eitt er það sem skiptir líklega mestu máli, það er heilsa og heilbrigði.  Þegar fólk er komið á sama aldur og ég þá er það lykilatriði lífsins.  Það þarf ekki mikið að bregða út af til að kollvarpa lífi manns.  Í hverri fjölskyldu þarf fólk oft og mörgum sinnum að horfast í augum við sláttumanninn.  

Því er þýðingarmikið að halda jafnvægi og sjá það sem gefur lífinu mest gildi.  Ekki ný vísindi en þó sem alltaf er vert að skoða. Jafnvel í slæmu skyggni og við erfiðar aðstæður. Og auðvitað á ég ekki að vera að ræða þetta.  Maður gerir það ekki í bloggi.




Eða hvað?   

Engin ummæli:

Skrifa ummæli